Miðvikudagur 6. september 2000 kl. 13:51
Lifandi menning í Reykjanesbæ

Mikið var fjallað um menningarmál í Reykjanesbæ á fundi bæjarstjórnar sl. þriðjudag, m.a. stefnu í safnamálum sveitarfélagsins og stofnun upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn. Bæjarfulltrúar lýstu allir ánægju sinni með Ljósanótt.Jónína Sanders (D) minntist sérstaklega á að Menningar- og safnaráð Reykjanesbæjar yrði fljótlega að móta sér ákveðna safnastefnu, þ.e. hvaða hluti sveitarfélagið ætti að varðveita og hvað ekki. Hún sagði að gamlir munir hefðu mismikið sögulegt gildi og að það væri dýrt að geyma gamla hluti því þeir þyrftu gott pláss og réttar aðstæður. „Hingað til hefur bærinn haft geymsluhúsnæði fyrir gamla muni í Röstinni en nú stendur til að rýma það húsnæði og færa munina yfir í Duus-húsin. Ég tel nauðsynlegt að skoða og meta í hvert sinn hvort geyma eigi hluti eða ekki, en slíkt er gert í söfnum annars staðar á landinu“, sagði Jónína og bætti við að spennandi tímar væru framundan í menningarmálum í Reykjanesbæ þar sem búið væri að ráða menningarfulltrúa, Valgerði Guðmundsdóttur, og mikill áhugi og gróska væri í gangi.Skúli Þ. Skúlason (B) tók undir þessi orð Jónínu og vakti einnig athygli á að nauðsynlegt væri að flýta stefnumótun Bókasafns Reykjanesbæjar þar sem það væri til umræðu að hafa upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn á safninu. „Ég þá staðsetningu góða, þar sem bókasafnið er í nágrenni við stærstu hótel bæjarins, en fyrst þarf að ljúka stefnumótun fyrir safnið og samræma þjónustuna starfsemi safnsins“, sagði Skúli.