Líðan mannsins sem bjargaðist eftir atvikum góð
Líðan manns á sjötugsaldri sem var bjargað úr sjónum rétt utan við Njarðvíkurhöfn á laugardagskvöld er góð eftir atvikum að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum. Maðurinn var með meðvitund og viðræðuhæfur eftir að hafa verið í talsverðan tíma í sjónum, svo hægt var að ræða við hann um málsatvik strax í kjölfar slyssins. Félagi hans lést í slysinu, hinn látni var meðvitundarlaus þegar viðbragðsaðilar náðu honum á land en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Hann var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar af vettvangi og úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi síðar um kvöldið. Báðir voru mennirnir íslenskir og á sjötugsaldri.
Mennirnir tveir höfðu verið á skemmtisiglingu á sportbát af gerðinni Flipper þegar slysið varð skammt frá Njarðvíkurhöfn. Að sögn vitna virðist sem báturinn hafi fengið inn á sig sjó við að taka krappa beygju og sokkið nánast samstundis. Báturinn sökk á um sextán metra dýpi en rannskóknardeild lögreglunnar og köfunarþjónusta unnu að því að ná honum á land í gærkvöld og nótt. Rannsókn er yfirstaðin í Njarðvíkurhöfn en rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögregla rannsaka nú tildrög slyssins.
Frá þessu er greint m.a. á visir.is og mbl.is