Lið Keilis sigraði í hönnunarkeppni HÍ
Lið Keilis, Mekatronik, bar sigur úr býtum í árlegri hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands sem fór fram í Hörpu í gær. Liðið er skipað tveimur nemendum í mekatróník við Keili og nemanda í sakfræði við American InterContinental University.
Liðið skipuðu þau Arinbjörn Kristinsson og Thomas Edwards, nemendur í mekatróník við Keili, og Fanney Magnúsdóttir, nemandi í sakfræði við American InterContinental University. Hlutu þau að verðlaunum 400 þúsund krónur frá Marel, öðrum af aðalbakhjörlum keppninnar, og veglegan farandbikar.
Athygli vakti að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var kölluð til þátttöku í keppninni þegar liðsmann annars liðs þótti vanta. Hún mun hafa sýnt af sér einstaka takta, sem þó nægðu ekki til sigurs. Lið Keilis úr hennar heimabæ, Reykjanesbæ, fór þó heim með bikarinn!
Keppnin fór fram í Silfurbergi í Hörpu í tengslum við UT-messsuna.