Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Leysir Þerrari af manninn á moppunni?
Það fylgdust allir með tækinu af mikilli athygli, eins og sjá má.
Mánudagur 12. nóvember 2012 kl. 05:01

Leysir Þerrari af manninn á moppunni?

Nemendur í tæknifræðinámi við Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ hafa hugsanlega fundið upp tæki sem í framtíðinni mun leysa af manninn á moppunni, þann sem þurrkar upp svita og tár sem falla á gólf íþróttahúsa í hita leiksins.

Það eru nemar á þriðja ári í mekatróník hátæknifræði sem hafa smíðað tækið. Hugmyndin kom frá Stefáni Bjarkasyni hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjanesbæjar en fyrirtækið Þriftækni ehf. mun kosta smíði frumútgáfu tækisins.

Það var síðan á leik Keflavíkur og Fjölnis í kvennakörfunni í nýliðinni viku sem tækið var fyrst prófað opinberlega.

Tækið hefur fengið nafnið Þerrari, enda fer það hratt yfir eins og Ferrari. Í stað þess að einhver hlaupi inn á völlinn með kústinn eða moppunar þegar dómarar gefa merki, er Þerrari sendur á staðinn en stjórnandi hans stendur á hliðarlínunni með fjarstýringu sem einnnig mætti nota til að fjarstýra bílum og flugvélum.

Almenn ánægja er með nýja tækið og virkni þess. Menn búast hins vegar ekki við því að Þerrari verði kominn í almenna notkun á næstu árum og því munu þeir á kústinum áfram hafa sitt hlutverk á körfuboltaleikjum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar Þerrari var prófaður í íþróttahúsinu í Keflavík í nýliðinni viku.

VF-myndir: Hilmar Bragi

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það þurfti að kalla til töframann til að stjórna Þerraranum í íþróttahúsinu í Keflavík.

Þerrari er öflugt tæki til að þurrka upp svita og tár af gólfum íþróttahúsa í hita leiksins.