Leyfilegt að vera ber að ofan í sundi
- Nýjar reglur í Sundmiðstöð Sandgerðis
Bæjarstjórn Sandgerðis samþykkti á fundi sínum á þriðjudag þá viðmiðunarreglu að í Sundmiðstöð Sandgerðis skuli sundgestir að lágmarki klæðast sundskýlu eða sundbuxum. Reglan á við bæði um konur og karla. Frístunda,- forvarna- og jafnréttisráð bæjarins lagði tillöguna fram. Áður voru ekki til skráðar reglur um sundfatnað gesta í sundlauginni.
Um miðjan janúar síðastliðinn skapaðist töluverð umræða um reglur um sundfatnað þegar konu sem var ber að ofan var vísað upp úr Jaðarsbakkalaug á Akranesi fyrir það eitt að vera ekki í topp. Töluverðar umræður sköpuðust um málið víða, meðal annars á Frétta- og upplýsingasíðu Sandgerðinga á Facebook og sagði móðir 11 ára gamallar stúlku frá því að síðasta sumar hafi dóttir hennar fengið þau fyrirmæli í sundlauginni að klæða sig í topp. Með nýju reglunum ættu slík tilvik að vera úr sögunni.