Leoncie leikur í kvikmynd
Söngstjarnan Leoncie er heldur betur með mörg járn í eldinum. Fyrir utan mikið annríki við að spila út um allt land og undirbúning nýrrar plötu og DVD-disks hefur hún nú tekið að sér að leika aðalhlutverk í alþjóðlegri stórmynd. Myndin er eftir ungan og upprennandi indverskan leikstjóra og verður tekin upp í Bretlandi, Indlandi og Portúgal.
„Svo sem ég líka alla tónlist í myndina og keypti mér sérstaklega nýtt píanó til að semja á,“ sagði Leoncie í samtali við Víkurfréttir í dag.
Leoncie segist ekki getað annað beiðnum um að hún komi og haldi tónleika en hún hefur skemmt gestum á Akureyri, Ísafirði, Reykjavík og víðar og segist alls staðar fá frábærar móttökur. „Fólkið vill sérstaklega heyra nýja lagið mitt „Going places“ og til dæmis á Nelly´s fékk ég dúndrandi mótttökur.“
Það sem skyggir hins vegar á gleði hennar þessa dagana eru ofsóknir sem hún segist sæta af höndum ýmissa bæjarbúa í Sandgerði þar sem hún býr ásamt Viktori, eiginmanni sínum.
Í gærdag var moldarkögglum kastað í hús þeirra hjóna og í nótt voru sömu aðilar á ferðinni og grýttu þá eggjum í framhlið hússins. Leoncie segist vita mæta vel hver sé þarna á ferðinni og segist hafa þurft að þola mikið áreiti frá hans hendi.
„Þetta er allt öðruvísi þegar ég er í Keflavík eða Reykjavík. Þar er mér tekið mjög vel og allir vilja fá eiginhandaráritun. Við erum að reyna að selja húsið okkar og vildum miklu frekar vilja búa í Keflavík. Bæjarstjórinn þar og konan hans eru frábært fólk,“ segir Leoncie sem bætir því við að ástandið í Sandgerði hafi versnað mikið eftir að hún gaf út lagið Draumur um Keflavík.
Blaðamaður Víkurfrétta fékk að sjá skjal frá félagsmálayfirvöldum í Sandgerði varðandi kvartanir Leoncie. Þar kom fram að hópur unglinga játaði að hafa gert söngkonunni lífið leitt og lofaði að láta af iðju sinni. Sú hefur raunin hins vegar ekki verið og er Leoncie ráðþrota því félagsmálastjóri og lögregla benda á hvort annað í málinu.
„Við bjuggum í 15 ár í Kópavogi og lentum aldrei i svona,“ segir Leoncie sem vonar að þessu linni sem fyrst. „Ég þoli þetta ekki lengur. Nágrannar mínir vita vel hvað er í gangi en þau gera ekkert í því og hlæja bara.“
VF-myndir/Þorgils Jónsson