Fréttir

Lentu á Keflavíkurflugvelli eftir árekstur í háloftunum við Vestmannaeyjar
Önnur vélanna er með áberandi skemmd á stéli. VF/pket
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 12. febrúar 2024 kl. 17:33

Lentu á Keflavíkurflugvelli eftir árekstur í háloftunum við Vestmannaeyjar

Alvarlegt flugatvik varð við Vestmannaeyjar í gær þegar tvær einkaflugvélar rákust saman á flugi. Vélarnar voru flughæfar eftir áreksturinn í háloftunum og lentu á Keflavíkurflugvelli. Flugvélar eru af gerðinni Kingair B200, báðar á erlendri skráningu, sem verið var að ferjufljúga til Norður-Ameríku. Flugmaður og einn farþegi voru í annarri vélinni en flugmaður í hinni.

„Rannsóknarnefnd samgönguslysa er með umrætt alvarlegt flugatvik til rannsóknar, er varð í gær þegar tvær flugvélar rákust saman á flugi nálægt Vestmannaeyjum. Ég get ekki sagt mikið meira um málið á þessu stigi,“ segir Ragnar Guðmundsson stjórnandi rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa í svari við fyrirspurn Víkurfrétta.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samkvæmt heimildum Víkurfrétta lentu umræddar flugvélar á Keflavíkurflugvelli í gær og tilkynntu ekki um atvikið. Það var ekki fyrr en þjónustuaðilar flugvélanna sáu að þær voru skemmdar að flugmennirnir greindu frá því sem hafði gerst. Þá var kölluð til lögregla og fulltrúar Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Vélarnar standa enn á Keflavíkurflugvelli en frekari upplýsingar er ekki að hafa um flugatvikið, sem sagt er alvarlegt.