Lenti í Keflavík eftir brunaboð
Talsverður viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli á tíunda tímanum í kvöld þegar flugvél Icelandair Cargo kom inn til lendingar, eftir að flugmenn vélarinnar höfðu fengið boð um að eldur væri laus í vélinni. Tveir menn voru um borð í vélinni.
Flugvélin fór frá Keflavík kl. 20 í kvöld áleiðis til Belgíu. Fljótlega eftir flugtak komu boð frá búnaði vélarinnar um að eldur væri laus í vélinni. Flugvélinni var því snúið við og henni lent í Keflavík skömmu fyrir kl. 22 í kvöld.
Talsverður viðbúnaður var hjá slökkviliði Keflavíkurflugvallar vegna lendingarinnar, sem tókst með ágætum. Fljótlega var gengið úr skugga um að allt væri eins og það átti að vera. Allur farmur vélarinnar var þó tekinn frá borði.
Nú er verið að rannsaka hvað olli því að skynjari fór í gang, en ekki var talin nein hætta á ferðum.
Ljósmyndir: Páll Ketilsson - Frá vettvangi á Keflavíkurflugvelli í kvöld.