Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lengt fæðingarorlof foreldra andvana barna
Þriðjudagur 15. mars 2016 kl. 16:00

Lengt fæðingarorlof foreldra andvana barna

Frumvarp Páls fékk þverpólitískan stuðning

Frumvarp Páls Vals Björnsson þingmanns Bjartrar Framtíðar um lengt fæðingarorlof foreldra var samþykkt samhljóða á Alþingi í dag. Frumvarp Grindvíkingsins Páls breytir lögum um fæðingarorlof fyrir foreldra sem eignast andvana barn eftir 22 vikna meðgöngu. Áður en lögunum var breytt fengu móðir og faðir sameiginlega þrjá mánuði í fæðingarorlof. Lögunum var breytt á þá leið að hvort foreldrið um sig fær þrjá mánuði, samtals sex mánuði. Málið fékk þverpólitískan stuðning í velferðarnefnd og var það samþykkt samhljóða í atkvæðagreiðslu í þingsal. 

Frumvarpið kom til eftir að Njarðvíkingurinn Einar Árni Jóhannsson og kona hans Guðmunda Guðlaug Sveinsdóttir vöktu athygli á málinu en dóttir þeirra Anna Lísa fæddist andvana. Þeim til undrunar kom í ljós í kjölfarið að mikið misræmi virðist vera í lögum er varða fæðingarorlof. Réttur þeirra hjóna skertist úr níu mánuðum í þrjá. Páll tileinkaði samþykki frumvarpsins þeim Einari og Guðmundu Guðlaugu í ræðu sinni á Alþingi í dag. Einar tjáði þakklæti sitt til Páls á Facebook í kjölfarið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tengd frétt: Foreldrum andavana barna mismunað

„Langar að hrósa háttvirtum þingmanni Bjartrar framtíðar Páli Vali Björnssynu sem fór af stað í lok árs 2014 í að vinna að breyttum reglum er varðar fæðingarorlof vegna fæðinga andvana barna og fékk þessu breytt til betri vegar í dag þegar frumvarpið fór í gegn með öllum greiddum atkvæðum. Ég kallaði eftir því að Palli beitti sér í að breyta reglum er þetta varðar þegar við fjölskyldan fórum í gegnum erfitt ferli er Anna Lísa dóttir okkar Gullu fæddist andvana 5.9.14. Þingið bjó einhverjum landsmönnum bjartari framtíð með þessari breytingu í dag og ég og mín fjölskylda erum Palla ofboðslega þakklát fyrir að hafa gengið í þetta mál, sem og falleg orð til okkar. Minning Önnu Lísu lifir,“ segir Einar á síðu sinni.