Föstudagur 3. ágúst 2012 kl. 14:12
Leitað eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu
Leigumarkaðurinn í Reykjanesbæ ræður ekki við fleiri hælisleitendur
Hjördís Árnadóttir hjá Reykjanesbæ segir að sú umfjöllun sem hafi átt sér stað í fjölmiðlum um hælisleitendur hér á landi sé ekki alltaf sanngjörn og oft á tíðum neikvæð. Vissulega séu inni á milli manneskjur sem sverti hóp hælisleitenda eins og gengur og gerist en hún segir bróðurpartinn af fólkinu sem hér leiti hælis vera venjulegt fólk sem vill umfram allt eiga venjulegt líf og vera til gagns.
Víkurfréttir greindu frá því á dögunum að hælisleitendur væru að flytja inn í sögufrægt hús við Túngötu í Reykjanesbæ og vakti það nokkur viðbrögð íbúa bæjarins. Hjördís segir að fólk virðist halda að hælisleitendur búi einungis á Fit Hostel í Njarðvík en svo sé nú aldeilis ekki. Um 80 hælisleitendur eru í Reykjanesbæ þessa stundina að sögn Hjördísar og aðeins eru 30 þeirra búsettir á Fit Hostel, flestir einstæðir karlmenn. Það þýðir að um 50 manns eru í öðrum híbýlum víðs vegar um bæinn.
Hjördís segir ennfremur að Reykjanesbær verði að veita þessu fólki húsnæði samkvæmt samningum við Útlendingastofnun frá árinu 2004 og því sé leitað á leigumarkað hér. Reykjanesbær leigir þessar íbúðir af bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Ef standsetja þarf íbúðir þá ber bærinn engan kostnað af því en hins vegar þarf bærinn að kaupa innbú og allar nauðsynjar. Nú segir Hjördís að leigumarkaðurinn hér ráði hreinlega ekki við fleiri hælisleitendur og því sé í vinnslu að leita eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu til þess að hýsa hluta þeirra. Hjördís tekur það fram að Reykjanesbær er ekki að borga með hælisleitendum heldur er það Útlendingastofnun sem greiðir daggjald fyrir hvern hælisleitanda og standi það ríflega undir kostnaði. Reykjanesbær mun þó líklega þjónusta hælisleitendur áfram þrátt fyrir að einhverjir muni búa annars staðar.
Hjördís segir að í raun séu aðeins um einn af hverjum 20-30 flóttamanna sem ætli sér að sækja um hæli hér á landi. Þetta fólk er svo stoppað hér við landamæraeftirlit en Ísland er skuldbundið alþjóðlegum samningum til þess að rannsaka aðstæður hvers og eins sem sækir um hæli í landinu. Um leið og einstaklingur sækir um hæli hér á landi fer í gang umsóknarferli sem gagnrýnt hefur verið mikið undanfarið að taki of langan tíma. „Það er of litlu fjármagni varið í þessi mál og því er þessi seinagangur í kerfinu. Við höfum margoft þrýst á breytingar í þessu ferli,“ sagði Hjördís í samtali við Víkurfréttir.