Leit stendur ennþá yfir í Grindavík
Ekki hefur enn tekist að finna manninn sem féll ofan í sprungu í Grindavík í gær. Sigmenn á vegum Landsbjargar hafa verið ofan í sprungunni síðan í gær en ekki er talið nógu öruggt að senda kafara til að leita í vatninu. Fundað var um viðveru Grindvíkinga í bænum og var ákveðið að það verði óbreytt áfram.
„Leit mun halda áfram af fullum krafti í dag. Við vorum með vaktaskipti í morgun og eru vanir fjalla- og rústabjörgunarmenn komnir til Grinavíkur víða að af landinu. Við látum tvo fara saman ofan í sprunguna en við teljum næsta víst að maðurinn hafi fallið ofan í sprunguna þegar hann var að vinna á jarðvegsþjöppu. Sprungan er talvert djúp og vatnið sem tekur svo við er líka mjög djúpt. Við teljum ekki öruggt að senda kafara ofan í vatnið en notum í staðinn fjarstýrðar neðansjávarmyndavélar,“ sagði Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Úlfar Lúðvíksson, segir að leit muni halda áfram en stöðugt hafi verið leitað síðan tilkynnt var um hvarf mannsins í gær. „Við ætlum okkur að finna manninn sem leitað er að,“ sagði Úlfar.