Leikskólum Reykjanesbæjar verður lokað
Allt útlit er fyrir að boðað verkfall Félags leikskólakennara (FL) komi til framkvæmda n.k. mánudag en fjallað er um málið á heimasíðu Reykjanesbæjar.
Komi til verkfallsins þá er ljóst að það mun hafa veruleg áhrif á starfsemi leikskóla Reykjanesbæjar. Þegar þetta er ritað hafa samningsaðilar, þ.e. samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefnd Félags leikskólakennara, ekki komið sér saman um starsfemi skólanna í boðuðu verkfalli og því er útlit fyrir að ágreiningnum verði vísað til félagsdóms.
Þetta þýðir að öllum leikskólum sem Reykjanesbær rekur verður lokað þegar verkfallið skellur á í ljósi þess að allir deildarstjórar í leikskólum bæjarins eru í Félagi leikskólakennara. Fallist félagsdómur hins vegar á þá túlkun Sambands íslenskra sveitarfélaga að leikskóladeild geti starfað þótt deildarstjóri sé í verkfalli verða skólarnir opnaðir á ný. Ekki verður þó hægt að halda úti fullri þjónustu.
Foreldrar verð upplýstir um framvindu mála en vonir standa að sjálfsögðu til að ekki komi til verkfalls.
Því má bæta við að foreldrar greiða ekki leikskólagjöld fyrir þá daga sem barn getur ekki sótt leikskóla í verkfalli.