Leikskólinn Holt tilnefndur til Evrópuverðlauna
Leikskólinn Holt í Innri Njarðvík hefur verið tilnefndur til Evrópuverðlaunanna eTwinning í ár. Holt fær tilnefningu fyrir verkefnið „Read the World“ eða Lesum heiminn í aldurshópnum 4 til 11 ára. Tilkynnt verður á næstu dögum um það hvaða verkefni hlýtur verðlaunin. Dómnefndin er samsett af 35 sérfræðingum frá ýmsum löndum.
Í verkefninu Lesum heiminn hefur leikskólinn Holt átt í samstarfi við leikskóla og skóla á Spáni, í Slóveníu, Frakklandi og Póllandi. Að sögn Heiðu Ingólfsdóttur, leikskólastjóra á Holti, hefur samstarfið þróast með tímanum. „Nú erum við komin í Erasmus plús sem er enn stærra og meira og er það tveggja ára verkefni. Í apríl tökum við á móti 13 manns í tengslum við það verkefni sem felur í sér kennaraskipti og fleira,“ segir hún.
Í verkefninu Lesum heiminn hafa kennarar unnið markvisst með ungum börnum þar sem þau eru hvött til að hugsa út fyrir kassann, vera skapandi í hugsun og til að leita sér þekkingar á ýmsum sviðum. „Með því að vinna verkefni sem þetta erum við að vinna með svo marga þætti, til dæmis með upplýsingatækni, menningu og umhverfi okkar. Við unnum mikið með umhverfi hvers skóla þar sem við skiptumst á myndum, umferðarskiltum og litum í náttúrunni svo eitthvað sé nefnt,“ segir Heiða. Í gegnum verkefnið Lesum heiminn var unnið með bókina um Greppikló eða Gruffalo á ensku en hún varð fyrir valinu því hana er hægt að nálgast á mörgum tungumálum. „Það er gaman að segja frá því að börnin og Sigurbjört Kristjánsdóttir bjuggu til texta um Greppikló sem er einstaklega skemmtilegt en laglínan kom annars staðar frá.“
Heiða segir ávinning barna af verkefni sem þessu afar mikinn. „Þau fá innsýn inn í menningu og umhverfi annarra landa ásamt því að finna leiðir og lausnir á ýmsum málum.“ Verkefnið tengist alltaf læsi ýmsan hátt og unnið er markvisst með upplýsingatækni.
Leikskólinn Holt fékk verðlaun fyrir verkefnið Lesum heiminn í desember síðastliðnum frá Rannís og var myndin tekið við það tilefni. Frá vinstri á myndinni eru Helgi Arnarson, fræðslustjóri Reykjanesbæjar, Kristín Helgadóttir, leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar og fyrrverandi leikskólastjóri á Holti, Anna Sofia Wahlström, deildarstjóri á Holti og frumkvöðull skólans á sviði etwinning og erasmus verkefna, Sigurbjört Kristjánsdóttir, deildarstjóri á Holti og verkefnastjóri verkefnisins og Heiða Ingólfsdóttir, leikskólastjóri á Holti.