Leikskólinn Holt fær Grænfánann í þriðja sinn
Leikskólinn Holt hlaut þann heiður að fá Grænfánann afhentan í þriðja sinn síðastliðinn föstudag en þann dag var einnig haldin sumarhátíð skólans. Markmið með umhverfismennt er að gera börn og kennara meðvitaðri um umhverfi sitt.
Leikskólinn Holt hefur unnið ötullega að umhverfismálum undanfarin ár og hefur mótað sér umhverfisstefnu sem hefur það að markmiði að börn og starfsfólk læri að vernda og bera virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu til frambúðar.
Lögð er áhersla á flokkun á lífrænum úrgangi, flokkun á pappír, fernum, gleri, málmum, plastumbúðum og unnið að orkusparnaði þar sem það á við. Einnig setur gróðursetning og ræktun ýmissa matjurta sinn svip á starfið. Salome Hallfreðsdóttir frá Landvernd kom og afhenti Grænfánann við hátíðlega athöfn og mikinn áhuga barnanna eins og sést á meðfylgjandi myndum.