Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 20. febrúar 2001 kl. 02:04

Leikskólinn Hjallatún

Leikskólinn Hjallatún opnaði 8.janúar sl. Áttatíu og þrjú börn eru nú í Hjallatúni, 95% eru þar í heilsdagsvistun og starfsmenn eru 25. Formleg vígsla verður laugardaginn 24. febrúar nk.

Þjóna þörfum barnanna
Leikskólinn er heilsdagskóli sem þýðir að aðeins heilsdagsdvöl er í boði. „Með þessu teljum við okkur geta mætt þörfum barna sem dvelja allan daginn í leikskóla mjög vel en ljóst er að barn sem dvelur 8-9 tíma í leikskóla hefur aðrar þarfir en barn sem dvelur 4-6 tíma“, segir Gerður Pétursdóttir leikskólastjóri.

Húsakynni
Tveir gangar eru í leikskólanum, austurgangur fyrir 2-4 ára börn og vesturgangur fyrir 4-6 ára börn. Á hverjum gangi eru heimastofur; Logaland og Ljósaland í vesturgangi og Varmaland og Bjarmaland á austurgangi. Hverri heimastofu fylgja hvíldarherbergi og salerni. Ætlunin er að heimastofurnar á hvorum gangi fyrir sig vinni saman og myndi eina heild.

Leikurinn er mikilvægur þáttur
„Nýjustu rannsóknir innan uppeldis- og sálfræði benda á að börn búi yfir meiri hæfileikum frá fæðingu en áður var talið. Einnig hefur því verið haldið fram að í gegnum frjálsan leik geti barnið lært og þjálfað nánast alla hæfileika sem það þarf á að halda til að komast vel af í nútímaþjóðfélagi. Leikurinn er því mikilvægasta náms- og þroskaleið leikskólabarnsins og í honum felst mikið sjálfsnám“, segir Gerður. „Kannanir sýna að börn telji sig fá of lítinn tíma og ekki nægan frið til leikja. Þess vegna höfum við ákveðið að hlúa að leiknum og láta hann njóta sín sem helstu náms- og þroskaleið barnanna. Einnig munum við leggja áherslu á að efla tilfinningagreind og sjálfsmynd barnanna með því að gefa þeim tíma, hlusta á þau og ræða um líðan þeirra ásamt því að leggja áherslu á nærveru, umhyggju og hlýju í leikskólastarfinu.“


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024