Leikskólakennarar semja
Leikskólakennarar í Reykjanesbæ hafa skrifað undir samkomulag við samninganefnd bæjarins, en samkomulagið verður lagt fyrir bæjarráð nk. fimmtudag.Leikskólakennarar óskuðu eftir viðræðum við bæjaryfirvöld fyrir nokkrum vikum síðan, og sögðu margir hverjir störfum sínum lausum vegna óánægju með kaup og kjör. Viðræðurnar hófust mánudaginn 5.júní og annar samningafundur var haldinn á miðvikudag í síðustu viku. Síðasti fundurinn var svo á þriðjudagsmorgun, og þá var ritað undir samkomulag sem báðir aðilar eru þokkalega sáttir við. Ellert Eiríksson, bæjarstjóri, sagði að fundirnir hefðu verið góðir. „Ég tel að fyrirliggjandi samkomulag sé ásættanlegt í stöðunni og vona að það hafi góð áhrif til framtíðar“, sagði Ellert.Ingibjörg Guðmundssdóttir, átti sæti í samninganefnd leikskólakennara, en hún sagði að leikskólakennarar væru sáttir við fyrirliggjandi samkomulag. „Lengra var ekki komist að þessu sinni en við lítum á þetta sem lok á sérkjaraviðræðum“, sagði Ingibjörg. Margir leikskólakennarar sögðu störfum sínum lausum fyrir nokkrum vikum síðan, vegna óánægju með kaup og kjör, en Ingibjörg sagðist gera ráð fyrir að þær myndu flestar draga uppsagnir sínar til baka.