Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Leikskólagjöld lækkuð í Reykjanesbæ
Föstudagur 22. september 2006 kl. 16:54

Leikskólagjöld lækkuð í Reykjanesbæ

Tímagjald á leikskólum verður lækkað og systkinaafsláttur aukinn frá næstu mánaðamótum, samkvæmt nýsamþykktri tillögu meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstórn Reykjanesbæjar. Minnihlutanum vildi hins vegar ganga lengra í þessum lækkunum en breytingartillaga sem hann lagði fram þess efnis á síðasta bæjarstjórnarfundi var felld.

Í tillögu meirihlutans var lagt til að tímagjald á leikskóla yrði 2,160 kr í stað 2,730 króna áður. Fyrir forgangshópa yrði gjaldið 1,630 krónur í stað 2,060 áður.
Þetta þýðir að eftir breytinguna mun 8 klst. vistun með fullu fæði kosta 23,790 kr. í stað 28,350 kr. áður.

Þá var lagt til að systkinaafsláttur yrði aukinn þannig að fyrir annað barn yrði greitt hálft gjald í stað 60% af fullu gjaldi áður. Jafnframt var lagt til að ekkert yrði greitt fyrir þriðja og fjórða barn en áður þurfti að greiða 25% af fullu gjaldi.

Minnihluti A-lista vildi ganga lengra í þessum lækkunum og í breytingatillögu sem hann lagði fram var lagt til að tímagjaldið yrði lækkað í 1.365 krónur og fyrir forgangshópa í 1,030 kr. Þannig myndi  8 klst. vistun með fullu fæði kosta 17,430 kr. í stað 28,350 kr. áður.

Breytingartillagan var felld af meirihlutanum en tillaga hans samþykkt af öllum bæjarfulltrúum. „Við samþykktum auðvitað tillöguna enda erum við alls ekki á móti lækkun. Við vildum hins vegar ganga lengra. Þrátt fyrir þá lækkun sem meirihlutinn var að boða erum við ekki að gera jafn vel og mörg önnur sveitarfélög, “ sagði Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi A-lista, í samtali við VF.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024