Leikfélag Keflavíkur frumsýnir leikritið Eftirlitsmaðurinn
Leikfélag Keflavíkur frumsýnir Eftirlitsmanninn eftir Nikolaj Gogol í kvöld. Leikstjóri er Grindvíkingurinn Bergur Ingólfsson. Hann hefur staðfært leikritið talsvert og hefur það verið fært nær nútímanum. Má þar nefna að hluti af sviðsmyndinni verður heitur pottur fylltur af vatni og vínflöskum.
Leikritið gerist í borg einni í Rússlandi þar sem embættismenn eru rotnir í gegn af spillingu og valdníðslu og gera lítið annað en að skemmta sér. Skyndilega kemur birtist eftirlitsmaður frá æðstu stöðum og uppi verður fótur og fit.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Bergur að mikil spenna væri í hópnum fyrir frumsýningarkvöldið. „Það er gífurleg stemming hjá okkur enda er þetta heitasta partýið á Suðurnesjum.“ Hann bætti því við að æfingar hefðu staðið allt frá miðjum september hjá þeim 11 leikurum sem taka þátt, en þar að auki stendur annar eins fjöldi að sýningunni.
Bergur útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1995 en hann lék aðalhlutverkið í Eftirlitsmanninum með Vox Arena, leikfélagið Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrir 15 árum síðan. Bergur hefur m.a. leikstýrt Moglí og Kristnihaldi undir Jökli auk fjölda áhugamannasýninga. Um þessar mundir leikur hann í fjórum sýningum samhliða því að leikstýra hjá LK: Chicago, Línu langsokk, Hýbýli vindanna og Héra Hérasyni. Bergur segir álagið vera nokkuð mikið. „Maður nær stundum að hvíla sig en það fer lítið fyrir fjölskyldulífinu.“
Frumsýningin hefst kl. 20:00 í Frumleikhúsinu Vesturbraut 17 og er miðaverð kr. 1.500. Veittur er afsláttur fyrir hópa 10 manns og fleiri. Miðasalan verður opin frá kl. 18:00 sýningardagana.
Næstu sýningar verða föstudaginn 29. október og sunnudaginn 31. október kl. 20:00.
Síminn í miðasölu er 421 2540.