Leiguíbúðum fækkar og verðið hækkar
- Hvati til að flytja á Suðurnesin af höfuðborgarsvæðinu er talsverður
Leiguverð hefur hækkað mikið á Suðurnesjum síðustu ár. Frá árinu 2011 til loka árs 2016 hækkaði það um 74%. Hækkun á leiguverði frá apríl 2016 til sama mánaðar 2017 nam 13%. Þetta kom fram í erindi Magnúsar Árna Skúlasonar á fundi um húsnæðismarkaðinn á Suðurnesjum á vegum Íslandsbanka nýlega. Á árunum 2005-2016 voru flestir leigusamningar gerðir árið 2011 eða um 1300 samningar. Á síðasta ári voru gerðir 1100 leigusamningar á Suðurnesjum og voru því um 200 færri en þegar þeir voru flestir árið 2011.
Magnús Árni telur að það séu nokkrar skýringar á þessu. „Ein skýringin er sú að fjöldi nýrra kaupenda hefur fjölgað á sama tíma. Fyrstu kaupendur eru að færa sig af leigumarkaðnum og yfir á séreignina. Önnur skýring er sú að þrátt fyrir að íbúðarverð hafi hækkað á Suðurnesjum er það enn talsvert undir íbúðarverði á höfuðborgarsvæðinu. Hvati til að flytja á Suðurnesin af höfuðborgarsvæðinu er talsverður,“ segir Magnús.
Framboð af íbúðarhúsnæði til leigu hefur minnkað þar sem íbúðir sem áður voru í leigu hafa verið seldar og aðrar íbúðir ekki komið inn á leigumarkaðinn í staðinn. Meðaleiguverð á tveggja herbergja íbúð hér á Suðurnesjum er 1814 kr. fm., þriggja herbergja íbúðir á 1692 kr. fm. og fjögurra herbergja íbúðir á 1211 kr. fm. Leiguverð er samt talsvert undir leiguverði í höfuðborginni. Íbúðarverð miðað við leigu var einnig hagstætt en ávöxtun leigusala á Suðurnesjum var með því besta sem gerist á landinu.
Á fasteigna- og leigumiðluninni Fermetra í Reykjanesbæ er ekki nein íbúð auglýst til leigu. „Framboð af lausu leiguhúsnæði er í sögulegu lágmarki um þessar mundir. Eftirspurn eftir leiguhúsnæði er mun meiri en framboðið og leiguverð hefur hækkað umtalsvert á þessu og síðasta ári,“ segir Þröstur Ástþórsson hjá Fermetra.
Heimavellir er eitt af stærri leigufélögum á landinu en þeir eiga 778 í búðir á Suðurnesjum sem þeir leigja út. Flestar íbúðirnar eru staðsettar á Ásbrú í Reykjanesbæ og í Grindavík.
„Við upplifum vel þann mikla uppgang sem er á svæðinu og allar íbúðir sem losna hjá okkur leigjast hratt og vel. Við notum ekki biðlistakerfi heldur eru einfaldlega allar íbúðir sem losna auglýstar á heimasíðu og facebook síðu félagsins í 5 daga og þeim úthlutað að því loknu. Við erum svo heppin að í eignunum á Ásbrú erum við með ríflega 70 setustofur sem við erum að breyta í íbúðir og munu fara í leigu um leið og þær verða tilbúnar,“ segir Guðbrandur Sigurðsson hjá Heimavöllum.
Heimavellir hófu starfsemi á Suðurnesjum síðasta sumar þegar þeir eignuðust blokkina við Stamphólsveg í Grindavík og skömmu síðar keyptu Heimavellir um 100 leiguíbúðir í Reykjanesbæ. „Í lok síðasta árs sameinuðust við Ásabyggð sem átti ríflega 700 eignir á Ásbrú og tókum yfir starfsemi þessa félags í byrjun þessa árs. Ef við horfum til Ásabyggðar sem áður hét Háskólavellir þá erum við með um 10 ára rekstrarsögu á svæðinu. Við höfum verið að endurskipuleggja safnið undanfarna mánuði og höfum þannig selt frá okkur tvær einstaklingsblokkir upp á Ásbrú og eitthvað af stökum eða óhentugum leigueignum á öðrum stöðum.“
Staðan á leigumarkaðinum hefur versnað enn frekar að undanförnu því annað stóru leigufélaganna á Ásbrú tók þá ákvörðun að selja íbúðir sem til stóð að leigja. Af þeim sökum hafa allnokkrir sem höfðu gert ráð fyrir því að komast þar inn lent í vandræðum þar sem framboðið af leiguíbúðum er mjög lítið um þessar mundir.