Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Leigubílstjórar ósáttir við reglubreytingar
Mánudagur 27. september 2004 kl. 17:20

Leigubílstjórar ósáttir við reglubreytingar

Nokkur kurr er í leigubílstjórum á Suðurnesjum eftir að samgönguráðuneyti lagði til fyrr í mánuðinum að fyrirkomulag leiguaksturs á milli sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi.

Lagt var til að svæðin yrðu sameinuð þannig að leigubílar gætu ekið óhindrað innan þess svæðis og tekið farþega hvar sem er án takmarkana. Tekið er fram að breytingarnar eru sérstaklega gerðar vegna aksturs á milli Leifsstöðvar og Höfuðborgarsvæðisins.

Bifreiðastjórafélögin á svæðinu, Fylkir og Freyr hafna þessum tillögum algerlega þar sem þær munu fráleitt leiða til hagræðis né auka hagkvæmni leigubílaaksturs á Suðurnesjum. Fjörutíu leigubílstjórar starfa á Suðurnesjum að Grindavík undanskilinni og er talið hæpið að þeir eigi eftir að hagnast nokkuð á breytingunni.
Þeirra markaðshlutdeild sé enda engin á Höfuðborgarsvæðinu og nægt framboð sé þar af leigubílum fyrir.

„Þó að um sé að ræða sama atvinnusvæði er fráleitt að um sama þjónustusvæði sé að ræða,“ sagði Aðalbergur Þórarinsson í samtali við Víkurfréttir. „Heldur einhver að fólk hér suðurfrá hringi í leigubílastöð í Reykjavík til að láta keyra sig á milli húsa í Keflavík, eða öfugt?“

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur lýst sig andsnúið þessum breytingum, sem og Bifreiðastjórafélagið Frami í Reykjavík sem tekur heils hugar undir rök Suðurnesjamanna.

Talið er að sameining svæðanna muni leiða til verri þjónustu á Suðurnesjum þar sem bifreiðastjórar munu sækja í auknum mæli til Reykjavíkur. Slíkt sé óásættanlegt fyrir alla aðila.

Aðalbergur sagðist að lokum ekki viss um hvenær endanlega yrði skorið úr í málinu, en taldi Samgönguráðuneytið ekki geta komið málinu í gegn vegna þess hve litlar undirtektir væru hjá þeim sem málið snerti.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024