Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 10. júlí 2000 kl. 10:47

Leigubíll á hundrað þúsund kall- frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur

Sleipnisverkfall hefur leitt til uppgripa hjá leigubílstjórum. Sumir eru gráðugri en aðrir því frést hefur af manni sem rukkaði 100 þúsund krónur fyrir far frá Leifsstöð til Reykjavíkur. Vísir.is greindi frá. "Við vorum fimm sem deildum leigubíl frá Keflavíkurflugvelli og borguðum 20.000 krónur hvert," segir Richard Bird, ferðamaður frá Englandi. Richard og kona hans, Janice Bird, komu til landsins síðastliðinn fimmtudag frá Heathrow. Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið stendur nú yfir verkfall Sleipnis, félags rútubílstjóra. Hefur það valdið þónokkrum vandræðum fyrir ferðafólk sem þarf að komast frá flugvellinum í Keflavík til Reykjavíkur eða annarra áfangastaða. Sannkallað gullæði hefur runnið á leigubílstjóra og meðal annars hafa brotist út slagsmál á milli reykvískra leigubílstjóra og keflvískra, en síðarnefndir töldu sig hafa einkarétt á akstri frá flugvellinum. "Okkur hafði verið sagt það í Englandi að hér væru rútubílstjórar í verkfalli og að leigubílar krefðust hærri greiðslu en eðlilegt væri. Því tókum við því feginshendi er við komum út úr flugstöðinni og finnsk eða dönsk hjón sem þarna voru buðu okkur að deila með sér leigubíl," segir Richard. Í hópinn slóst einnig níræð ensk kona sem búsett er á Sri Lanka. "Bíltúrinn var ekki langur, sennilega svona 45 mínútur. Hin hjónin fóru út fyrst og þeim brá ansi mikið í brún þegar þau fengu verðið uppgefið," heldur Richard áfram og tekur fram að ekki hafi verið kveikt á gjaldmælinum. Allir ferðamennirnir borguðu verðið sem leigubílstjórinn setti upp. Richard gat ekki nefnt leigubílafyrirtækið en kvaðst þess fullviss að um raunverulegan leigubíl hefði verið að ræða. "Þetta var 6 sæta bíll, ljósrauðbrúnn að lit." Þau hjónin voru að öðru leyti ánægð með dvöl sína á Íslandi, þrátt fyrir þessa mjög svo óánægjulegu byrjun. Venjulegt verð á leigubíl frá Keflavíkurflugvelli mun vera 5000 krónur fyrir 4 saman í bíl en 8000 þegar um er að ræða 6 manna bíl.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024