Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Leifsstöð: Ákveðið að hraða stækkun norðurbyggingar
Föstudagur 18. mars 2005 kl. 16:51

Leifsstöð: Ákveðið að hraða stækkun norðurbyggingar

Stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. samþykkti síðastliðinn miðvikudag að hraða  svo sem kostur væri að stækka og breyta norðurbyggingu flugstöðvarinnar í ljósi nýrrar spár um farþegafjölgun á næstu árum. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins í gær.
Gert er ráð fyrir fjárfestingum upp á allt að 4,5 milljarða króna á næstu tveimur árum. Svokölluð norðurbygging er hin upprunalega flugstöð sem tekin var í notkun árið 1987. Þar hefur mörgu verið breytt nú þegar í samræmi við fjölgun farþega en betur má ef duga skal þegar fyrir liggur ný spá breska fyrirtækisins BAA Plc. frá því í janúar 2005 um að tvöfalt fleiri farþegar fari um flugstöðina árið 2015 en 2004, sem er 10% meira en BAA spáði 2001. Áformað er að umbylta skipulagi í norðurbyggingunni og stækka hana jafnframt. Raunar er fyrsta hluta þess verkefnis þegar lokið, sem var að stækka móttökusal og rými verslunar fyrir komufarþega.
Stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. (FLE)  ætlar sem sagt að hraða undirbúningi að stækkun norðurbyggingar til suðurs um 6.000-7.000 fermetra til að auka við brottfararsvæði og rými fríhafnarverslunar,  koma fyrir nýju flokkunarkerfi farangurs og rýmka um komufarþega sem nálgast farangur sinn. Þetta er framkvæmd sem á að ljúka fyrir lok árs 2006.
Þá verður lokið nú í ár að innrétta skrifstofur á 3. hæð hússins og flytja þangað starfsemi FLE, skrifstofuhald opinberra aðila og fleiri sem nú halda til á 2. hæð. Eftir það verður öll 2. hæðin lögð undir verslun og þjónustu fyrir brottfararfarþega. Við skipulagsbreytinguna í núverandi húsnæði, og stækkun norðurbyggingar til suðurs,  tvöfaldast verslunar- og þjónusturýmið á 2. hæð flugstöðvarinnar og verður 7.700 fermetrar í stað 3.600 fermetra nú.
Rekstur flugstöðvarinnar stendur að langmestu leyti undir öllum þessum fjárfestingum og lánsfé að hluta. Álögur á farþega og flugrekendur verða ekki auknar vegna þessa. Fram kom í ávarpi Gísla Guðmundssonar, stjórnarformanns FLE, á aðalfundinum í gær að rekstrarafkoma og fjármunamyndun félagsins sé góð og standi undir nauðsynlegum framkvæmdum. Fjárfestingar frá stofnun félagsins nemi um 6 milljörðum króna og verið fjármagnaðar nær alveg úr rekstri.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024