Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Leiðislýsing rúmlega tvöfaldaðist í verði - Fólk sýnir hækkun skilning
Fimmtudagur 9. desember 2010 kl. 09:34

Leiðislýsing rúmlega tvöfaldaðist í verði - Fólk sýnir hækkun skilning

Gjald fyrir raflýstan leiðiskross í Kirkjugörðum Keflavíkur hefur rúmlega tvöfaldast á milli ára en nú kostar 4500 krónur að hafa upplýsta jólaskreytingu í kirkjugörðunum við Aðalgötu og í Hólmbergskirkjugarði. Talsverðrar óánægju gætir með þessa verðhækkun á þjónustunni sem er tilfinnanleg hjá þeim sem eru með fleiri en eina leiðisskreytingu. Fjölmargir hafa haft samband við Víkurfréttir og lýst óánægju sinni og eins hefur fólk verið í sambandi við Keflavíkurkirkju vegna málsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rafvík rafverktakar ehf. sjá um lýsingu í kirkjugörðum Keflavíkur fyrir jólin en lýsingin var boðin út og var verktakinn sá eini sem bauð í verkið. Áður höfðu einstaklingar séð um lýsinguna í görðunum fyrir jólin og var gjaldið 1800 krónur fyrir jólin 2009, að sögn Hólmgeirs Hólmgeirssonar, sem var einn þeirra sem sá um tengingar í görðunum í fyrra.

Valþór Söring Jónsson hjá Rafvík rafverktökum ehf. sagðist í samtali við Víkurfréttir hafa orðið var við þá óánægju sem lýst er hér að framan. Hann sagði hins vegar að eftir að kostnaðurinn hafi verið útskýrður fyrir þeim sem kaupa þjónustuna, þá hafi fólk sýnt hækkuninni skilning. Skýringuna á rúmlega tvöfaldri hækkun gjaldsins í ár segir Valþór skýrast af því að nú sé fyrirtæki með verkið sem hafi um tug starfsmanna í vinnu í görðunum og mest af vinnunni fari fram í næturvinnu. Tímabilið sem ljósin séu kveikt sé einnig lengra og það kalli á meiri vinnu en áður. Af þessari vinnu þurfi Rafvík rafverktakar ehf. að standa skil á sköttum og skyldum til ríkis, lífeyrissjóða og stéttarfélaga.

Varðandi þá einstaklinga sem hafi fleiri en eina leiðisskreytingu sagði Valþór að veittur sé afsláttur frá 15% af heildarupphæðinni. Sé einn aðili með margar skreytingar sé auka afsláttur samkomulagsatriði.
Valþór sagði ekki ljóst í dag hversu mörg leiði yrðu skreytt fyrir jólin. Það væru ennþá tugir skreytinga að koma hvern dag. Það væri ekki markmið Rafvíkur að jólalýsingin í kirkjugörðunum væru gróðafyrirtæki. Þetta verkefni væri hins vegar að veita mörgum vinnu á annars erfiðum tímum þegar kemur að verkefnum rafverktaka.

Lýsing í kirkjugarðinum í I-Njarðvík kostar 2000 kr. en er ókeypis að Útskálum og Hvalsnesi.