Leiðinleg færð á suðvesturhorninu
Fólk frá Björgunarsveitinni Suðurnes er á ferðinni til að losa bíla sem enn sitja fastir eftir fannfergi gærdagsins. Áhersla var lögð á að halda aðalleiðum opnum þannig að víða í hliðargötum varð þungfært og er sumstaðar enn. Fastir bílar á víð og dreif hafa gert snjómoksturstækjum erfitt fyrir.
Skafrenningur er á vegum milli byggðalaga á Suðurnesjum s.s. á Grindavíkurvegi og þæfingur út á Reykjanesi. Þar er aðeins fært stærri bílum.
Snjóþekja og skafrenningur er á Reykjanesbraut og raunar á öllu suðvestur horninu. Þungfært og skafrenningur er á Mosfellsheiði. Hálkublettir og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Á öðrum leiðum eru hálkublettir og sumstaðar snjóþekja.
Veðurspá gerir ráð norðaustan fyrir 13-18 m/s og snjókomu með köflum við Faxaflóasvæðið næsta sólarhringinn og búast má við éljagangi yfir helgina. Frost verður á bilinu 2-7 stig.
--
Ljósmynd/elg.