Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 25. september 2000 kl. 10:52

„Leggjum áherslu á jákvæð samskipti“-segir leikskólastjórinn á Gimli

Hjallastefna er uppeldisaðferð sem höfð er að leiðarljósi í nokkrum leikskólum hér á landi. Höfundur hennar Margrét Pála Ólafsdóttir hefur þróað þessa stefnu síðast liðin tíu ár og hlaut hún viðurkenningu jafnréttisráðs 1997 fyrir átak í jafnréttismálum. Stefnan grundvallast af sex þáttum þ.e.1. Að mæta hverju barni eins og það er. 2. Aldursskiptir jafningjahópar-fastur hópstjóri. 3. Kynjaskipting á ákveðnum stundum. 4. Sköpun í stað tilbúinna lausna. 5. Hófsemi í stað ofsóunar. 6. Agi,rósemd og friður. Kynjaskipting á ákveðnum stundum er sá þáttur stefnunnar sem fólk staldrar við þegar Hjallastefnan er kynnt og þvi ákvað Silja Dögg að fræðast betur um stefnuna og tilgang kynjaskiptingar og heimsótti leikskólann Gimli sem starfar eftir stefnunni og ræddi við Karen Valdimarsdóttur leikskólastjóra. Æfingin skapar meistarann Aðalsmerki Hjallastefnunnar er virðing,vinátta,kærleikur,jöfnuður og gleði. Sú aðferð sem notuð er til að ná fram settum markmiðum byggir á æfingu í jákvæðum samskiptum og með það að leiðarljósi er hægt að verða meistari á mörgum sviðum. „Æfingin skapar meistarann“ er einmitt titill bókar sem Margrét Pála höfundur stefnunnar gaf út árið 1992 og nýtist bókin vel í starfi og leik innan skólans. Karen segir að orðin „að æfa sig“ virki mjög vel á alla, þ.e.börn og fullorðna það er hægt að æfa svo margt t.d. prúðmennsku, tillitssemi,kjark, gleði og það er einhvern veginn svo miklu auðveldara að takast á við ýmis verkefni t.d.að haga sér vel ef við leggjum okkur þessi orð í munn. Jákvæð blöndun Hjallastefna notar kynjaskiptingu sem meginaðferð þar sem börnum í leikskólanum er skipt á deildir eftir kyni. Markmið skiptingarinnar er að auka möguleikana á jákvæðri blöndun þar sem stúlkur og drengir geta mæst án þess að gjalda fyrir kyn sitt. Kynjaskipting er aðeins leið að markinu. Annars vegar eru kynin styrkt hvort í sínu lagi og hins vegar hittast kynin daglega í sérstökum stundum þar sem fullorðnir tryggja jákvæð samskipti og raunverulegt samstarf. Hræðsla við kynjaskiptingu Blaðamanni er litið út um gluggann og út á leiksvæðið og ekki er betur hægt að sjá en að kynin leiki sér þar í sátt og samlyndi enda gengur stefnan ekki út á að aðskilja kynin. „Nei, ekki aldeilis“, segir Karen „þau leika sér á útisvæði hittast í söngstundum og í markvissum hópatímum (vinnustundum). Aðalmarkmiðið er að þeim líði vel í samskiptum sínum við hvort annað og þau öðlist sterka sjálfsmynd“, segir Karen og dreypir á kaffinu sínu. Öruggari í samskiptum Margrét Pála gerði rannsókn á þeim börnum sem höfðu verið í leikskólanum Hjalla og voru komin í grunnskóla. Ástæða rannsóknarinnar var sú að hún hafði gjarnan fengið fyrirspurnir um hvernig börnunum myndi vegna þegar í grunnskóla kæmi. Niðurstaða rannsóknarinnar var á þá leið að börnin þóttu eðlileg í alla staði, þó bar meira á að þau væru öruggari í samskiptum við hitt kynið . Hugmyndafræði Hjallastefnunnar er ekki sú að móta öðruvísi börn, heldur mæta hverjum einstaklingi á jafnréttisgrundvelli. Ólíkar áherslur hjá kynjunum Kynin eru styrkt með einstaklings-og félagsþjálfun. Einstaklings-og félagsþjálfun gildir fyrir bæði kyn, þó fá stúlkur stærri skammt af einstaklingsþjálfun (sjálfstæði, sjálfstraust og sjálfsvitund, jákvæðni og hreinskiptni, kjarkur og frumkvæði) en drengir félagsþjálfun (agi, hegðun og framkoma, viðhorf og samskipti, nálægð og vinátta). „Þessi þjálfun fer annars vegar fram í hefðbundnum leikskólaverkefnum og skiptir mestu máli hvernig við stöndum að málum, bregðumst við og svörum -og hins vegar í sérstökum stundum með sérstökum verkefnum sem búið er að skipuleggja með einstaklings-eða félagslega þjálfun í huga“, segir Karen. Dæmi um einstaklingsþjálfun, framsögn (segja sögu, syngja fyrir hópinn), kjarkæfingar (klifra, stökkva, hrópa) og rík áhersla er lögð á að það sé allt í lagi að gera mistök því við gerum bara betur næst. Annars vegar félagslega þjálfun, agi og samskipti. Agaþjálfun felst m.a. í að æfa að fara eftir reglum og samskiptæfingar þá er lögð áhersla á ljúfmennsku, hugga vin sinn og tjá tilfinningar. Kynjaskipting fyrir tilviljun Upphaf kynjaskiptingarinnar á Gimli má rekja til ársins 1997 þá starfaði hún sem leikskólakennari og fékk þá fyrir tilviljun hreinan strákahóp á deildina sína. „Þar sem ég hafði alltaf unnið með kynjablandaða hópa, varð þessi reynsla mjög dýrmæt fyrir mig því það hafði aldrei hvarflað að mér að kynjaskipting væri eitthvað sem vert væri sérstaklega að skoða. Svo þetta gerðist bara „óvart“ eins og sagt er vegna þess hvernig biðlistinn var á þeirri stundu. Eftir 15 ár í faginu varð ég að hella mér út í fræðin, víkka sjóndeildahringinn með opnu og jákvæðu hugarfari. Það skemmdi ekki fyrir áhuga mínum, að það bar árangur að vinna með drengina sér á vissum stundum. Ég varð forvitnari með hverjum deginum sem leið að afla mér frekari þekkingar. Við á Gimli vorum svo heppin að getað leitað beint til Margrétar Pálu leikskólastjóra á Hjalla og fengum við faglegan stuðning þaðan“, segir Karen. Jákvæð samskipti við foreldra Um áramótin 1998 varð ákveðið að taka upp Hjallastefnuna á Gimli í heild þar sem meginpartur stefnunnar var þegar kominn. „Við vorum í leit að barnvænni stefnu með barnið í brennidepli því varð þessi stefna fyrir valinu og sjáum við ekki eftir því í dag. Margrét Pála er búin að vinna gagnlegar og fræðandi handbækur sem starfsfólk skólans les sér til fræðslu og uppbyggingar og hvað er nú betra en að hafa uppeldisfrömuðinn, höfund stefnunnar innan seilingar þegar nánari upplýsinga er þörf og bæta þarf við frekari þekkingu“, segir Karen. Hún vill geta þess að án góðs starfsmannahóps væri erfiðara að ná góðum árangri og skiptir þá ekki öllu máli hvaða uppeldisstefna er valin. „Það er ekki sjálfgefið að ná slíkum hópi saman sem blómstrar af áhuga og er alltaf tilbúinn að gera betur börnunum í hag og skólanum til heilla. Það vill svo vel til að Gimli hefur því láni að fagna að hafa þennan frábæra hóp starfsmanna sem til þarf við uppbyggingu og endurmat á faglegu og áhugaverðu starfi. Foreldrar og aðrir aðstandur barnanna á Gimli hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja að styðja við bakið á starfsfólkinu með hreinskiptum og einlægum samskiptum“, segir Karen.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024