Leggjum áherslu á góða þjónustu við íbúa

Ingþór Guðmunds­son, oddviti E-listans

Kosið er til bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum á morgun, laugardaginn 26. maí. Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita allra framboðslista í Vogum.
 
Ingþór Guðmunds­son, oddviti E-listans:
 
Hver eru stærstu kosningamálin í þínu sveitarfélagi fyrir þessar kosningar?
Stærstu málin eru þjónustan við íbúa og jafnvægið á milli þjónustu og álagna eins og fasteignagjalda. Í raun er það sem snertir daglegt líf fólks með beinum hætti það sem stendur hjarta þess næst.
 
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, að þessu sinni?
E-listinn leggur áherslu á góða þjónustu við íbúa hvort sem það snýr að skólamálum, þjónustu við eldri borgara eða uppbyggingu í samfélaginu. Við viljum sjá heilsubæinn Voga dafna og veita eldri borgurum heilsueflingarstyrk og stuðla að því að fólk haldi heilsu og geti verið sem lengst heima hjá sér. Við viljum umhverfismálin í öndvegi enda eru þau eitt að stóru málum 21. aldarinnar. Þar viljum við sjá umhverfisstefnu hjá öllum stofnunum og hvetja íbúa og fyrirtæki til flokkunar og endurvinnslu. Við vitum að bærinn er að stækka á næstu árum svo það þarf að gæta þess að öll þjónusta fylgi. Þess vegna þarf að stækka grunnskólann og huga að stækkun sundlaugar. Við viljum einnig lækka álögur á íbúa og halda áfram að lækka fasteignagjöld líkt og við gerðum á þessu ári, lækka leikskólagjöld og hækka frítekjumark eldri borgara í afsláttarkerfi sveitarfélagsins. Allt þetta viljum við gera samhliða ábyrgri fjármálastjórn en E-listinn hefur rekið sveitarsjóð hallalaust allt kjörtímabilið.