Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Leggjast gegn breytingum á sjúkraflutningum
Föstudagur 2. nóvember 2012 kl. 16:09

Leggjast gegn breytingum á sjúkraflutningum

Sjúkraflutningar í Grindavík voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar en áður hafði verið fjallað um málið í bæjarráði. Sigríður Snæbjörnsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Jón Guðlaugsson slökkvistjóri Brunavarna Suðurnesja komu á 1301. fund bæjarráðs og gerðu grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á sjúkraflutningum í Grindavík, sem fela í sér að ábyrgð á flutningunum færast frá HSS til BS. Sjúkraflutningamenn verða þá starfsmenn BS í stað HSS.

Sjúkraflutningamennirnir Páll Jóhannesson, Gunnar Baldursson, Örn Sigurðsson, Sigurður Karlsson og Bogi Adolfsson komu á 1302. fund og gerðu grein fyrir sjónarmiðum starfsmanna varðandi fyrirhugaðar breytingar á rekstri sjúkraflutninga.

Bæjarstjórn telur að þjónusta sjúkraflutninga í Grindavík sé góð og er ekki sannfærð um að þjónusta og viðbragð muni aukast með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru. Bæjarstjórn óttast að með breytingunum verði rekstrargrunni sjúkrabíls í Grindavík ógnað, sem geti leitt til þess að í framtíðinni verði ekki sjúkrabíll staðsettur í Grindavík. Slík þróun væri algerlega óásættanleg fyrir um 3.000 manna sveitarfélag með öfluga útgerð og ferðaþjónustu, en um Grindavík og Grindavíkurhöfn fara árlega hundruðir þúsunda gesta.

Bæjarstjórn leggst því alfarið gegn breytingunum.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024