Leggja vatnslögn ofanjarðar að Reykjanesvita
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að veita allt að sex milljónum króna í lagningu bráðabirgðalagnar fyrir kalt vatn að Reykjanesvita. Bláa lónið er að fara í uppbyggingu þjónustumiðstöðvar við Reykjanesvita en forgangsmál er að koma upp salernisaðstöðu þar strax í sumar. Vatnslögn á svæðið er forsenda þjónustumiðstöðvar og vatnssalerna.
Verkfræðistofa Suðurnesja hefur tekið saman gögn fyrir Reykjanesbæ um bráðabirgðalögn sem er um 2,2 kílómetrar og verður lögð ofanjarðar frá vatnslögn sem liggur að eldisstöð Stolt Sea Farm á Reykjanesi. Lögnin mun sjá salernisaðstöðu ferðamanna og vitavarðarhúsinu á Reykjanesi fyrir köldu vatni. Lögnin mun samkvæmt gögnum verkfræðistofunnar kosta 3,7 milljónir króna án virðisaukaskatts.