Leggja undir sig heilsugæslustöð
– Heilsugæslan í Vogum flytur í Álfagerði
Nú styttist í að starfsemi heilsugæslunnar í Vogum verði flutt úr Iðndal í Álfagerði. Húsnæði heilsugæslunnar hefur staðið nær ónotað um nokkurra ára bil. Eina notkun þess er fyrir hádegi á þriðjudögum þegar læknir frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kemur og er með móttöku fyrir sjúklinga.
Sveitarfélagið Vogar hefur nú fest kaup á því húsnæði þar sem heilsugæslan var áður og verður það nýtt fyrir starfsemi sveitarfélagsins, m.a. verður aðstaða til fundarhalda bætt. Aðstaðan í Álfagerði verður vonandi tilbúin á næstu dögum og mun þá læknismóttakan framvegis verða þar, á þriðjudagsmorgnum hér eftir sem hingað til.