Leggja lokahönd á loftlínu við Grindavík
Landsnet er þessa stundina að leggja lokahönd á nýja loftlínu yfir hraunbreiðuna á Grindavíkurvegi. Línunni er ætlað að flytja raforku frá orkuverinu í Svartsengi til Grindavíkur.
Nýja loftlínan þverar 300 metra breiða hraunbreiðu sem rann yfir Grindavíkurveg í eldgosinu 14. janúar sl. Leiðigarðar beindu hraunstraumnum yfir veginn. Hefði garðanna ekki notið við hefði hraunið runnið yfir byggðina í Grindavík.
Unnið hefur verið alla helgina að því að koma raflínum yfir hraunið. Möstur voru reist beggja vegna hraunsins á laugardag og í gær, sunnudag, flutti þyrla Landhelgisgæslunnar rafstrengina yfir hraunið í viðamikilli aðgerð.
Í dag hefur svo verið unnið að lokafrágangi í möstrunum og að tengja loftlínurnar inn á jarðstrenginn sem liggur til Grindavíkur.
Á meðan ekkert rafmagn berst frá Svartsengi hefur Grindavík verið keyrð á varaafli frá varaaflstöðvum sem voru fluttar til bæjarins vegna ástandsins.