Laxeldisstöð í niðurníðslu fjarlægð á kostnað landbúnaðarráðuneytisins
Heilbrigðisnefnd Suðurnesja er þessa dagana að láta rífa niður mannvirki og hreinsa lóð að Stað í Grindavík þar sem áður var laxeldisstöð. Landið er í eigu Landbúnaðarráðuneytisins. Lóðin er hreinsuð á kostnað ráðuneytisins eftir að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ítrekað og án árangurs farið þess á leit við ráðuneytið að það hreinsaði landið.
Í fundargerðum heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá síðasta ári má finna eftirfarandi bókun. „Fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja greindi frá afskiptum embættisins af mannvirkjum í niðurníðslu við fyrrum laxeldi að Stað í Grindavík. Landið er í eigu Landbúnaðarráðuneytisins. Nefndin samþykkir lóðarhreinsun umræddrar lóðar á kostnað lóðareiganda.“ Víkurfréttir könnuðu málið nánar hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Fyrir svörum varð Bergur Sigurðsson, heilbrigðis og umhverfisfulltrúi.
Hvernig stendur á því að heilbrigðisnefnd þarf að láta vinna verk á kostnað ráðuneytis?
Þetta er góð spurning og best væri að fulltrúar landbúnaðrráðuneytisins svöruðu henni. Við hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja höfum ítrekað og án árangurs farið þess á leit við ráðuneytið að það hreinsi landið.
Hver er aðdragandi að þessum framkvæmdum?
Hann er nokkuð langur enda málið stórt. Fyrsta bréf Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja til landbúnaðarráðuneytisins var sent fyrir rúmu ári. Eftir nokkarar ítrekanir þótti sýnt að engin viðleitni væri fyrir hendi hjá ráðuneytinu til þess að vinna verkið. Þá var málið lagt fyrir heilbrigðisnefnd sem ákvað að láta vinna verkið á kostnað ráðuneytisins.
Hvernig gengur að innheimta kostnað vegna framkvæmda sem unnar eru í óþökk þess ábyrga?
Það gengur alla jafna vel. Auðvitað býst maður ekki við því að aðili sem ekki sinnir skyldum sínum þrátt fyrir ítrekuð bréfaskrif hlaupi til og borgi reikninginn þegar hann kemur. En þá fara málin bara sína leið í innheimtuferli. Heilbrigðisnefndir geta tekið lögveð í lóðum og fasteignum, þannig að ef menn þráast lengi við er hægt að láta bjóða upp eignirnar til þess að ná inn kostnaði.
Eru fordæmi fyrir því að heilbrigðiseftirlitið láti bjóða upp eignir til þess að ná inn kostnaði?
Það hefur ekki gerst frá því ég tók til starfa fyrir liðlega fimm árum. Enda er það leiðinlegt ferli fyrir alla sem að því koma. Ég á nú ekki von á því að landbúnaðarráðuneytið að láti bjóða upp landareign sína, enn það á eftir að koma í ljós.
Er algengt að heilbrigðisnefnd láti vinna verk á kostnað annarra?
Nei, sem betur fer er það ekki algengt, fáein tilvik á ári. Flestir sinna tilmælum og taka til á lóðum sínum. Enda hlýtur það að vera mun ódýrara fyrir viðkomandi.
Hvenær er gripið til þess að vinna verk á kostnað eigenda?
Það er einungis gert ef menn ekki sinna tilmælum og þá helst ef um fok og slysahættu er að ræða eða vegna slælegrar meðhöndlunar á úrgangi.
Voru slysahættur í landi landbúnaðarráðuneytisins?
Já, þar var bæði fok og slysahætta auk þess sem úrgangur var á víð og dreif um svæðið. Djúpir og óvarðir brunnar og fjúkandi bárujárnsplötur svo eitthvað sé nefnt.
Er verkinu lokið?
Nei ekki að öllu leyti. Við lögðum áherslu á að koma í veg fyrir mestu fok og slysahættuna. Það er töluvert óunnið en það er von okkar að ráðuneytið láti klára dæmið sjálft með sómasamlegum hætti í framhaldi af þessum fyrstu aðgerðum heilbrigðiseftirlitssins.
Hvernig stendur á því að heilbrigðiseftirlitið gerir atlögu á ráðuneyti með þessum hætti?
Hér er ekki nein atlaga á feriðinni. Ráðuneytið hefur fengið samskonar meðferð og aðrir aðilar sem ekki fara að lögum og reglum hvað varðar umgengni og umhverfismál. Úr því að ráðuneytið sinnir ekki skyldum sínum er ekki um annað að ræða en að fá verktaka til þess að gera það á þeirra kostnað. Annað væri brot á jafnræðisreglu.
Hvers vegna er ekki gripið til samskonar aðgerða t.d. gagnvart tönkunum við Njarðvíkurhöfn?
Gaman að þú skulir spyrja að þessu. Það mál er í samskonar ferli. Það verkefni er þó mun umfangsmeira og tímafrekara í alla staði. Við höfum látið vinna hluta af verkinu og erum að vinna í því að innheimta kostnað sem af því hlaust. Það verður ráðist í næsta áfanga um leið og innheimtu fyrir fyrsta áfanga er lokið. Í raun er verið að vinna það mál með sama hætti og mál landbúnaðarráðuneytisins, segir Bergur Sigurðsson, heilbrigðis og umhverfisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.