Laumulegur með amfetamín
Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af tveimur karlmönnum um tvítugt um helgina, sem báðir voru með fíkniefni í fórum sínum.
Lögreglumenn voru við hefðbundið eftirlit í umdæminu þegar þeir tóku eftir nokkrum strákum í hóp, sem voru eitthvað að pukrast, heldur laumulegir. Þeir voru teknir tali og eftir skamma stund framvísaði einn þeirra, nítján ára piltur, smellupoka með amfetamíni.
Í hinu tilvikinu var rúmlega tvítugur karlmaður með kannabisefni í fórum sínum.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.