Lánið hækkaði um tæpar 300 milljónir
Lán upp á 800 milljónir, sem Reykjanesbær tók haustið 2006 vegna gatnagerðarframkvæmda í Innri-Njarðvík, stendur í dag hátt í 1,1 milljarði og hefur hækkað um hátt í 300 milljónir á tveimur árum. Sveitarfélögin standa nú frammi fyrir hækkandi fjármagnsliðum vegna gengishruns krónunnar og er þetta lán dæmi um það.
Umrætt lán var tekið í dollurum í gegnum Lánasjóð sveitafélaga og hljóðaði upp á 11,7 milljónir dollara eða 800 milljónir í íslenskum krónum. Afborganir hafa verið greiddar í íslenskum krónum. Í dag stendur lánið í ríflega 9,7 milljón dollurum en samkvæmt yfirliti frá Lánasjóðnum stóð það í einum milljarði og 93 milljónum íslenskra króna í lok október. Þetta kemur fram í formlegu svari frá bæjarskrifstofu við fyrirspurn Víkurfrétta.
Tekist var á um umrætt lán í bæjarstjórn á sínum tíma en fulltrúar minnihlutans sátu hjá við afgreiðslu málsins. Lánið var tekið vegna framkvæmda á nýjum byggingasvæðum í Innri – Njarðvík.
Samkvæmt upplýsingum frá bæjarskrifstofu eru nú lausar 44 einbýlishúsalóðir, átta undir parhús á tveimur hæðum, tólf fjölbýlishúsalóðir og átta lóðir undir raðhús í Ásahverfi, Tjarnarhverfi og Dalshverfi 1 og 2. Samtals er 176 íbúðum óúthlutað sem er um 11% af því sem úthlutað hefur verið frá 2005. Bæjarsjóður hefur síðan í byrjun ágúst endurgreitt rúmar 100 milljónir vegna lóðaskila.
Núverandi efnahagsástand og hrun krónunnar leikur fjárhag sveitarfélaganna illa og fer Reykjanesbær ekki varhluta af því. Fjármagnsliðir bæjarsjóðs hafa hækkað um tæpa tvo milljarða umfram áætlanir eins og VF greindi frá í síðustu viku.
Tengdar fréttir:
Minnihlutinn telur sig ekki fá viðunandi svör
Fjármagnsliðir tæpir tveir milljarðar umfram áætlanir
Endurgreiðir rúmar 100 milljónir vegna lóðaskila