Langir biðlistar eftir félagslegu húsnæði
Umsóknum eftir félagslegu húsnæði í Reykjanes hefur fjölgað frá því í fyrra. Árið 2016 voru 86 umsóknir eftir félagslegu húsnæði en í ár eru þær 98.
Í hópi einstaklinga sem bíða eftir félagslegu húsnæði í dag eru um tuttugu á biðlista og búa þeir á heimilum aðstandenda, vina eða kunningja, en það eru tímabundin úrræði þar til lausn finnst að sögn Heru Óskar, sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjanesbæjar. „Það er lítil hreyfing á íbúðum sem losna í félagslega kerfinu og það er einnig mikil samkeppni á leigumarkaði. Mikil fólksfjölgun hefur átt sér stað og því er erfitt að fá leigt,“ segir Hera í samtali við Víkurfréttir.
Farið var yfir stöðuna á biðlistum eftir félagslegu húnæði í Reykjanesbæ á fundi velferðarráðs Reykjanesbæjar þann 27. nóvember sl. Þar kom fram að 98 umsóknir séu á biðlista eftir almennum íbúðum og 67 umsóknir eftir íbúðum aldraðra. Fjöldi umsókna aldraðra eru nánast sá sami á milli ára, í október í fyrra voru umsóknirnar 69 en 67 í nóvember á þessu ári.
„Við bíðum núna eftir húsnæðistefnu sveitarfélagsins en þeir sem eru í mestu neyðinni á hverjum tíma eru í forgangi,“ segir Hera. Velferðarráð lagði einnig til að umsókn um stofnstyrk til bygginga nemendaíbúða á Ásbrú verði samþykkt þegar samþykki Keilis liggur fyrir um stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar.