Landsstjórnin: Minnihlutastjórn vinstri flokkanna besti kosturinn
„Í raun kom það mér ekki á óvart að upp úr syði og stjórnin félli. Það hefur verið mikill þrýstingur á fráfarandi stjórn eftir bankahrunið. Óánægjan hefur farið stigvaxandi hjá almenningi í landinu, enda illa vegið að heimilum og fyrirtækjum,“ segir Jóna Kristín Þorvalsdsdóttir bæjarstjóri í Grindavík þegar hún er spurð um viðbrögð við tíðindum af landsstjórninni, þ.e. falli ríkisstjórnarinnar.
„Gjaldþrot og stóraukið atvinnuleysi eru uggvænleg þjóðfélagsmál, sem hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.
Samfylkingin var efalaust búin að reyna samstarfið til þrautar og kannski gott betur. Skrefið sem Björgvin steig, þegar hann sagði af sér, hefur ýtt á fleiri að gera slíkt hið sama og axla þannig ábyrgð á því sem gerst hefur hjá þjóðinni.
Minnihlutastjórn vinstri flokkanna tel ég besta kostinn í stöðunni núna. Uppstokkun er óhjákvæmileg hjá öllum flokkunum, en ekki hvað síst í Seðlabanka og fjármálaeftirliti. Nú veltur allt á því að skapa frið, vinna traust og tiltrú á stjórnvöldum og setja fram afgerandi stefnumörkun til að takast á við vanda efnahagslífins.