Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Landsstjórnin: Aðalverkefnið að bregðast við vanda heimilanna og fyrirtækjanna
Mánudagur 26. janúar 2009 kl. 17:23

Landsstjórnin: Aðalverkefnið að bregðast við vanda heimilanna og fyrirtækjanna

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Mikil tíðindi hafa orðið í landsstjórninni í dag eftir viðburðaríka síðustu daga. Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur gengið á fund forseta Íslands og beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Forsetinn hafi fallist á beiðnina en óskað eftir því að ríkisstjórnin sitji þar til ný stjórn hafi verið mynduð.

Víkurfréttir leituðu til bæjarstjóranna á Suðurnesjum til að fá viðbrögð þeirra við tíðindum dagsins og hver séu næstu skref. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, var fyrstur til að verða við kalli okkar og meðfylgjandi er svar hans við spurningum Víkurfrétta. Rétt er að taka fram að svörin eru persónulegar hugleiðingar Róberts en ekki skoðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga:


„Það er búin að vera mikil óvissa í efnahagsmálum landsins undanfarna mánuði og sú óvissa sem hefur verið undanfarnar vikur um stjórn landsins gerir stöðuna ekki einfaldari.

Það er líklega einsdæmi að svo mikil skakkaföll gangi yfir lýðræðisríki án þess að nokkrar breytingar séu gerðar á stjórn landsins og því hef ég fullan skilning á þeirri óánægjuöldu sem hefur farið vaxandi síðustu rúma þrjá mánuði.
Í ljósi þess að búið er að ná samkomulagi um að boða til kosninga í vor hefði ég talið að það væri skásti kosturinn í stöðunni að núverandi stjórn sæti fram að kosningum, með ákveðnum breytingum sem kæmu til móts við þær kröfur sem uppi eru í samfélaginu um að menn axli ábyrgð.

Aðalverkefnið næstu misserin er að bregðast við vanda heimilanna og fyrirtækjanna og auka traust í samfélaginu. Atvinnuleysi er gríðarlegt áfall fyrir viðkomandi einstakling og fjölskyldu hans, og það má ekki festa sig í sessi. Það eru rúmlega 1.500 manns atvinnulausir á Suðurnesjum í dag. Að líkindum fjölgar nokkuð á atvinnuleysisskránni um næstu mánaðarmót. Atvinnuleysið í dag er öðruvísi en við höfum áður tekist á við, þar sem þeir sem eru atvinnulausir koma úr fleiri starfsstéttum og því ekki einfalt mál að finna þeim störf við hæfi.

Auk þess hafa heimilin minna svigrúm en áður til að takast á við tekjutap, þar sem skuldir og skuldbindingar heimilanna hafa stóraukist undanfarin ár. Til að fjölga atvinnutækifærum á nýjan leik, verður að koma efnahagslífinu af stað og byrja að skapa verðmæti.

Vonandi ber nýrri ríkisstjórn gæfa til að einbeita sér að þessum verkefnum, en gleymi sér ekki í stóladans sem almenningur hefur engan áhuga á að horfa á,“ segir Róbert Ragnarsson í samtali við vf.is