Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Landsnet tryggir kísilmálmsverksmiðju orku um jarðstreng frá Svartsengi
Fimmtudagur 19. júlí 2007 kl. 03:10

Landsnet tryggir kísilmálmsverksmiðju orku um jarðstreng frá Svartsengi

Fyrirtækið Tomahawk Development, sem er í meirihlutaeigu Íslendinga, hefur unnið tillögu að matsáætlun fyrir Icelandic Silicon Corporation vegna mats á umhverfisáhrifum við framleiðslu á kísilmálmi í Helguvík. Þar er ráðgert að reisa kísilmálmverksmiðju sem í fyrsta áfanga mun framleiða 25.000 tonn af kísilmálmi en fullbyggð mun verksmiðjan framleiða 50.000 tonn af málminum. Kostnaður við fyrsta áfangan er um 9 milljarðar króna og mun hann skapa 90 störf.

Landsnet hefur haldið þrjá fundi með stofnendum Icelandic Silicon Corporation (ISC) og á síðasta fundinum í Kaupmannahöfn var kynnt að Landsnet er tilbúið að tengja verksmiðju ISC við háspennudreifikerfi Íslands með því að leggja nýjan jarðstreng frá Svartsengi.

Í tillögu að matsáætlun segir að stofnað verði nýtt íslenskt fyrirtæki, Icelandic Silicon Corporation (ISC), sem muni reka verksmiðjuna í Helguvík. Verksmiðjunni hefur verið fundinn staður á lóð nr. 1 í Helguvík, við hliðina á núverandi fiskimjölsverksmiðju og nálægt hafnargarði. Sú lóð hafði áður verið eyrnamerkt stálpípuverksmiðju. Önnur möguleg staðsetning verksmiðjunnar er á lóð ofar á iðnaðarsvæðinu. Samkvæmt tillögu að matsáætlun eru 1,3 kílómetrar í næstu byggð frá verksmiðjunni.

Fram kemur að framleiðsla kísilmálms krefst mikils hráefnisinnflutnings, auk þess sem útflutningur á kísilmálmi er verulegur. Helguvík sé ákjósanlegur staður fyrir verksmiðjuna, þar sé ísfrí höfn og stórt iðnaðarsvæði. Þá sé stutt að sækja starfskrafta. Við framleiðsluna þarf einnig töluverða raforku og þess vegna var Ísland valið sem framleiðslustaður. Þá segir að það sé mikilvægt fyir ISC að íslenska orkan sé vistvæn, sem endurspeglar hugmyndir fyrirtækisins um samspil manns og náttúru.

Þá segir í töllögunni að á Íslandi sé mikill mannauður í formi þekkingar á framleiðslu málma og verður hann notaður, þar sem fyrsta skef framleiðslunnar krefst um 90 starfa. Mörg þessara starfa verða hálaunastörf. Á síðari stigum mun ISC hefja framleiðslu á sólarrafhlöðuhæfum kísil og sólarrafhlöðum og þá munu enn fleiri hátæknistörf skapast í Reykjanesbæ.

En úr hverju er kísilmálmurinn unninn? Í tillögunni að matsáætluninni segir að kísill sé annað algengasta frumefni jarðskorpunnar, en kísill finnist þó ekki í hreinu formi í náttúrunni. Kísill finnist helst í formi kvarts, en það sé víða að finna í opnum námum, þó ekki á Íslandi. Hráefnið mun því aðallega koma fram Kanada, Skotlandi eða Spáni.

Framleiðsla kísilsins mun fara fram í ljósbogaofnum sem hitar hráefnið upp í um 1900 gráðu hita. Kol og koks eru notuð til að afoxa kvartsið samkvæmt sérstöku efnahvarfi. Fljótandi kísill er tekinnn frá ofnunum og steyptur í mót og kallast þá kísilmálmur.

Í tillögunni segir að nýjasti útbúnaður og framleiðsluaðferðir verði notaðar til að tryggja betri orkunýtingu og lágmarka alla mengun frá framleiðslunni. Til að framleiða 50.000 tonn af kísilmálmi þarf um 130.000 tonn af kvartssandi, 59.000 tonn af kolefnum og um 670 gígavattsstundir af raforku á ári.

Aðalmengunin frá verksmiðjunni verður losun á CO2 út í andrúmsloftið. Losun annarra lofttegunda verður mjög lítil. Notast verður við bestu fánalegu tækni í framleiðslu- og mengunarvarnabúnaði verksmiðjunnar.

Rykmengun frá framleiðslunni og hráefnisgeymum eru þættir sem geta haft áhrif á umhverfi verksmiðjunnar. Segir í tillögunni að rykið sé mjög verðmætt og því verði safnað í fullkomnar síur og gert sé ráð fyrir sölu á rykinu til Evrópu.

Dreifing á útblæstri og loftgæði eru helstu rannsóknarverkefni sem unnin verða fyrir frummatsskýrslu og verða niðurstöður þeirra kynntar þar. Til að meta umhverfisáhrif verksmiðjunnar verða samskonar rannsóknir gerðar eftir að verksmiðjan hefur tekið til starfa. Loftgæði og rykmyndun verða einnig vöktuð eftir að verksmiðjan tekur til starfa.
Þá segir að hávaði frá verksmiðjunni geti haft áhrif á umhverfi hennar og verður hávaðamengun frá verksmiðjunni metin í fummatsskýrslu.

Hins vegar segir að sjónmengun frá verksmiðjunni verði í lágmarki. Verksmiðjan standi á lóð sem sé 15 metrum lægri en aðrir staðir iðnaðarsvæðisins í Helguvík. Hún muni t.a.m. varla sjást frá Garðvegi.

Í tillögu að matsáætluninni, sem nú er til kynningar, segir að á fundi með umhverfisráðuneytinu þann 14. mars sl. hafi komið fram að starfmönnum ráðuneytisins hafi litist vel á verkefnið og með notkun á bestu fáanlegu tækni við hreinsibúnað gat ráðuneytið ekki séð neinar hindranir í verkefninu. Einnig segir að iðnaðarráðuneytið hafi verið mjög áhugasamt um verkefnið. Á fundi þar þann 28. júní sl. hafi embættismenn ráðuneytisins ráðlagt stofnendum ISC hvernig væri best að standa að umsóknum um öll þau leyfi sem framkvæmdin er háð.

Tillagan að matsáætlun - smellið hér!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024