Landsnet skoðar fyrirbyggjandi ráðstafanir
„Við fylgjumst vel með framvindunni vegna jarðhræringa og umbrota á Reykjanesi og höfum undirbúið okkar starfsemi undir nokkrar sviðsmyndir í samvinnu við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets.
„Við höfum notað tímann vel, farið yfir okkar viðbragðsáætlanir, unnið með okkar viðskiptavinum að áhættustýringu með tilliti til áhættumats, skoðað tengivirki og línur á svæðinu og skoðað til hvaða fyrirbyggjandi ráðstafana væri hægt að grípa til komi til eldgoss og hraunrennslis sem ógnað gæti Suðurnesjalínu og afhendingaröryggi raforku á svæðinu.“