Landsnet má hefja framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2
Landsneti á ekki að vera neitt að vanbúnaði að hefja framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2. Umhverfis- og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga hefur samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir byggingu línunnar.
Umhverfis- og skipulagsnefnd Voga kom saman í vikunni á reglubundnum fundi sínum. Til umfjöllunar var umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2, en umsóknin var send sveitarfélaginu til umfjöllunar í maí 2014.
Í vikulegu fréttabréfi Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum segir, að það er kunnara en frá þurfi að segja að deildar meiningar hafa verið um þessa framkvæmd í sveitarfélaginu. Það var því að mörgu að hyggja eftir að umsóknin um framkvæmdaleyfið var sett fram. Nefndin hefur fjallað um málið á nokkrum fundum, nefndarmenn hafa kynnt sér ítarleg gögn um málið auk þess sem ráðist var í grenndarkynningu og yfirfarnar þær umsagnir sem um hana bárust. Það er því óhætt að segja að mikil vinna hafi verið lögð í verkefnið.
Nefndin samþykkti samhljóða umsókn um framkvæmdaleyfi og fól skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið með þeim skilyrðum sem fram komu í áliti Skipulagsstofnunar auk þess sem honum var falið að leita samstarfs við nágrannasveitarfélögin um eftirlit með framkvæmdum þegar þær hefjast. Það hillir því undir að framkvæmdir við nýja háspennulínu á Suðurnesjum geti hafist.