Landsmót unglingadeilda í Grindavík
Dagana 24. til 28. júní verður Landsmót unglingadeilda Slysavarnafélagsins Landsbjargar haldið í Grindavík. Von er á tæplega 400 þátttakendum sem munu svo sannarlega setja lit sinn á bæjarfélagið á meðan á landsmótinu stendur með ýmiskonar leikjum og þjálfunarpóstum víðsvegar um bæinn.
Samhliða landsmótinu fer fram verkefnið „Partners in play“ sem er alþjóðlegt samstarfsverkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar og þýsku björgunarsamtakana THW.
Þó svo að landsmótið hefjist ekki fyrr en á fimmtudag þá mættu fyrstu gestir landsmótsins til Grindavíkur í gær en það er hópurinn sem tekur þátt í „Partners in play“ sem er mættur.
Hafist var handa við að slá upp tjaldbúðum á mótssvæðinu snemma í gær og má búast við því að búðirnar stækki dag frá degi héðan af. Undirbúningur landsmótins hefur verið í höndum Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar og Unglingadeildarinnar Hafbjargar undanfarin tvö ár enda í mörg horn að líta þegar svona stórt mót er haldið en allir þátttakendur mótsins verða á ferð og flugi um Grindavík frá fimmtudegi til sunnudags með tilheyrandi fjölda af rauðum peysum og stórum tækjum.