Landsbankinn segir upp 13 í flugstöðinni
– varúðarráðstöfun af hálfu Landsbankans vegna óvissu
Ráðningarsamningum fastráðinna starfsmanna Landsbankans í afgreiðslu bankans í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verið sagt upp, en þar starfa 13 manns. Uppsögnin í Leifsstöð verður afturkölluð, haldi bankinn áfram að sinna fjármálaþjónustu í flugstöðinni eins og verið hefur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.
Ákvörðun um uppsögn starfsfólks í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er varúðarráðstöfun af hálfu Landsbankans vegna óvissu um framhald starfseminnar þar. Þjónustusamningi bankans var sagt upp á síðasta ári og tilkynnt að fjármálaþjónusta yrði boðin út og átti það að gerast á síðastliðnu hausti. Af því varð ekki og í lok árs var gerður viðauki við þjónustusamning Landsbankans sem fól í sér að afgreiðsla bankans yrði opin til 30. júní 2015. Óvissa ríkir því um það hver muni sinna fjármálaþjónustu í Leifsstöð eftir það.
Landsbankinn hefur rekið afgreiðslu í Leifsstöð allt frá opnun og hyggst taka þátt í útboði Isavia um bankaþjónustu þegar það verður auglýst.