Landsbankinn og Þroskahjálp á Suðurnesjum stofna styrktarsjóð
Landsbanki Íslands til móttöku í útibúi sínu að Hafnargötu 57 í Keflavík nú síðdegis en húsnæðið þar er nú orðið hið glæsilegasta eftir gagngera endurnýjun. Af því tilefni undirritaði Landsbankinn og Þroskahjálp á Suðurnesjum samkomulag um stofnun Styrktarsjóðs Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Sjóðurinn er stofnaður fyrir tilstuðlan Landsbankans sem varðveitir sjóðinn og skipar formann sjóðsstjórnar. Útibú bankans á Suðurnesjum leggja sjóðnum til alls kr 3.000.000 sem greiðast út á næstu 4 árum. Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans og Friðgeir Magni Baldursson útibússtjóri í Keflavík undirrituðu samninginn fyrir hönd bankans og Theódór Guðbergsson og Halldór Levi Björnsson fyrir hönd Þroskahjálpar.
Endurbætur í samræmi við breyttar þarfir
Allar endurbætur á útibúi Landsbankans í Keflavík eru í samræmi við breyttar þjónustuþarfir viðskiptavina bankans. Starfsstöðvar þjónustufulltrúa hafa verið bættar. Sett hefur verið upp nýtt fundarherbergi, búið fullkomum búnaði til slíkrar aðstöðu og vélbúnaður útibúsins hefur verið endurnýjaður. Loks má geta að settur hefur verið upp flatur veggskjár sem ætlaður er til að miðla upplýsingaefni til viðskiptavina og á næstunni verður sett upp í afgreiðslusal nettengd tölva til frjálsra afnota fyrir viðskiptavini bankans, en slíkt auðveldar mjög viðskipti í Einkabanka Landsbankans án biðraða og kostnaðar.
Þjónustan hefur verið efld verulega og aðlöguð að nútímabankastarfsemi. Þjónustufulltrúum hefur verið fjölgað og söluráðgjafi hefur fasta starfstöð í útibúinu. Auk fyrirtækjasérfræðings þá hefur verið ráðinn einstaklingssérfræðingur í fullt starf sem mun sinna markaðsmálum og ráðgjöf hvers kyns vegna einstaklingsviðskipta.
Áhersla er lögð á vandaða en um leið skilvirka þjónustu, þar sem þarfir viðskiptamannsins eru í fyrirrúmi. Landsbankinn lítur á bankaviðskipti sem langtímasamband sem þarf að rækta vel í gagnkvæmu trausti. Breytingarnar í útibúinu hafa tekist vel í alla staði og útibúið er skipað afar hæfu starfsfólki sem verður ávallt grunnurinn að góðu bankaútibúi. Stöðugildum útibúsins hefur fjölgað um 4 og er þá meðtalin afgreiðslan í Gömlu flugstöð. Þá er ótalin afgreiðsla útibúsins í Sandgerði með tæp 3 stöðugildi, en einnig þar verður fjölgun á næstunni.
Svo gagnger breyting og endurnýjun á raunar allri innri starfsemi útibúsins skilar sér fljótt og örugglega. Þetta birtist m.a. í aukinni starfsánægju og fleiri mælanlegum stærðum úr rekstri. Þannig hafa t.d. útlán aukist á annan milljarð króna frá áramótum svo eitthvað sé nefnt, en útlán útibúsins í Keflavík eru í dag all nokkuð hærri en innlán. Þessu var öfugt farið um síðustu áramót.
Meðbyr á Suðurnesjum
Útibú Landsbankans í Keflavík finnur mikinn og góðan meðbyr hér á Suðurnesjum og raunar alls staðar þar sem útibúið á viðskipti sem nær langt út fyrir svæðið í mörgum tilvikum.
Útibúið er mjög vel í stakk búið að þjóna bæði einstaklingum og fyrirtækjum, stórum sem smáum. Útibúið hefur um árabil átt farsæl viðskipti við nokkra stóra og öfluga rekstraraðila en eðlilega speglast viðskiptamannahópurinn í takti við umhverfi sitt. Með öflugum fyrirtækjaviðskiptum útibúsins hafa viðskipti við nokkur millistór fyrirtæki eflst að undanförnu og ný verið að bætast við enda útibúið vel í stakk búið til slíkra viðskipta.
Landsbankinn vill færa iðnaðarmönnum en þó ekki síst viðskiptamönnum þakkir fyrir þolinmæðina og skilninginnn meðan á breytingunum stóð, án þess að nokkuð væri slakað á starfseminni á sama tíma. Það tók stundum á sig sérstakar myndir en blessaðist með góðum vilja allra er málið snerti.
Í tilefni þessara tímamóta var undirrituð samstarfsyfirlýsing milli Landsbanka Íslands hf, útibúanna á Suðurnesjum, og Þroskahjálpar á Suðurnesjum um stofnun Styrktarsjóðs Þroskahjálpar á Suðurnesjum.
Útibússtjóri Landsbankans í Keflavík er Friðgeir Magni Baldursson.
Myndir teknar í Landsbankanum í Keflavík í dag. Efsta myndin er frá undirritun samkomulagsins milli Landsbankans og Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Myndin í miðjunni sýnir yfir fjölda gesta í hófinu, en neðsta myndin er af ungum tónlistarfólki úr Reykjanesbæ ásamt stjórnanda sínum. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson