Landsbankafólk hreinsaði fjörur
– og býður til tónleika föstudaginn 5. september milli kl. 15 og 16
Starfsfólk Landsbankans í Reykjanesbæ lét gott af sér leiða með sjálfboðavinnu í tengslum við Ljósanótt. Hópurinn gekk til liðs við Tómas Knútsson og Bláa herinn og hreinsaði fjörur á Fitjum nú í vikunni. Markmiðið var að fegra Reykjanesbæ og aðkomu að bænum fyrir Ljósanótt.
Alls mættu um 25 sjálfboðaliðar, starfsfólk, makar og börn, í fjöruna og lögðust á eitt í þetta mikilvæga verkefni.
Einar Hannesson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ, kveðst afar ánægður með verkefnið: „Landsbankinn hefur verið aðalstyrktaraðili Ljósanætur síðustu ár og nú þótti okkur upplagt að bretta upp ermar og fegra umhverfið okkar. Við höfum fylgst vel með frábæru framtaki Bláa hersins við að hreinsa strendurnar og okkur þótti verkefnið því alveg kjörið. Við vonumst til að enn fleiri fyrirtæki á Suðurnesjum fylgi í kjölfarið og styðji við frábært hreinsunar- og sjálfboðaliðastarf Bláa hersins.“
Ljósanótt hefst í dag, fimmtudag, og stendur til sunnudags. Landsbankinn verður með tónleika föstudaginn 5. september milli kl. 15 og 16 í útibúi sínu við Krossmóa. Þar mun hljómsveitin Klassart sjá um að skapa létta og skemmtilega stemmingu og veitingar verða í boði.
Um Bláa herinn
Blái herinn hefur frá árinu 1995 skipulagt og framkvæmt yfir 80 hreinsunarverkefni í nokkrum sveitarfélögum á landinu. Sjálfboðaliðar hafa hreinsað yfir eitt þúsund tonn af alls kyns rusli og drasli úr umhverfinu, aðallega sjávarströndinni, opnum svæðum og höfnum landsins. Fólk á vegum Bláa hersins hefur einnig heimsótt leikskóla, grunnskóla og fjölbrautarskóla og haldið fyrirlestra og sýnt sjávardýr til fróðleiks fyrir yngstu kynslóðina.