Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Landris mælist norðvestan við Þorbjörn
Laugardagur 28. október 2023 kl. 15:29

Landris mælist norðvestan við Þorbjörn

Nýjustu GPS gögn og InSAR mynd unnin úr gervitunglagögnum frá því síðdegis í gær sýna skýr merki um landris nærri Svartsengi. Landris virðist hafa hafist í gær, 27. október og bendir til aukins þrýstings, líklegast vegna kvikuinnskots á dýpi. Miðja landrissins er um 1,5 km norðvestan við Þorbjörn, nærri Bláa lóninu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Árin 2020 og 2022, mældist einnig landris á sama svæði. Þetta er í fimmta sinn síðan 2020 sem landris mælist þar. Fyrsta mat á hraða landrissins sem er í gangi núna er að það sé hraðara en áður. Að svo stöddu er ekki merki um að kvika færist nær yfirborði, aðstæður geta hins vegar breyst á skömmum tíma. Sprunguhreyfingar vegna gikkskjálfta nærri og austan Svartsengis gætu mögulega gert kvikunni kleift að færast grynnra í skorpunni.

Mynd: Veðurstofa Íslands

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir á Reykjanesskaga

Síðustu aflögunargögn frá Reykjanesskaga sýna að margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir í jarðskorpunni. Þessi ferli hafa áhrif á stóru svæði, þar á meðal Fagradalsfjall (þar sem þensla heldur áfram - síðan í ágúst 2023), svæði austan Festarfjalls (þar sem aflögun virðist hafa stöðvast) og á síðasta sólarhring sýna gögn landris nærri Svartsengi.

Yfir 7.000 jarðskjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinu sem hófst 25. október norðan við Grindavík. Hrinan stendur enn yfir þótt aðeins hafi dregið úr virkninni. Þrátt fyrir það eru enn líkur á að jarðskjálftar finnist á svæðinu.

Reyna að áætla dýpi og stærð innskotsins við Þorbjörn

Líkanareikningar verða gerðir í dag til að reyna að áætla dýpi og stærð innskotsins norðvestan við Þorbjörn. Ný gervitunglagögn verða aðgengileg annað kvöld og túlkun á þeim á fyrripart mánudags (30. október). Þau gögn ættu að gefa aukna innsýn í kvikuhreyfingar og aflögun á Reykjanesskaga.