Landris hraðara nú en fyrir eldgosið 29. maí
Hraði landriss er meiri nú en fyrir gosið 29. maí og á svipuðum hraða og það var í byrjun árs en það hafa ekki verið miklar breytingar milli atburða hvað varðar hraðann á landrisinu.
Líkan byggt á aflögunargögnum sýnir að innflæði kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi er nú 4-6 m3/s. Í upphafi kvikuinnskotsins og síðan eldgossins 29. maí er metið að um 13–19 milljón m3 hafi farið úr kvikuhólfinu. Niðurstöður líkanreikninga gefa til kynna að miðað við núverandi innflæði verður kvikuhólfið undir Svartsengi komið í svipaða stöðu og fyrir eldgosið 29. maí eftir þrjár til sex vikur. Frá og með deginum í dag er því líklegt að kvikuhlaup eða eldgos fari af stað á næstu vikum og mánuðum, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Hættumatskort
Gildir frá 2. júlí 2024 til 9. júlí 2024 að öllu óbreyttu
Kortið sýnir mat á hættu sem er til staðar og hættu sem gæti skapast með litlum fyrirvara. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða en hætta getur leynst utan þeirra.
Litur svæða endurspeglar heildarhættu innan þeirra. Sú hætta sem metin er hærri en önnur innan svæða, er feitletruð í listanum á kortinu.