Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Landnámsskógur ræktaður í Innri Njarðvík
Þriðjudagur 31. maí 2011 kl. 09:37

Landnámsskógur ræktaður í Innri Njarðvík

Fyrstu plönturnar í nýjum landnámsskógi, sem ræktaður verður í Innri Njarðvík, verða gróðursettar í dag. Daði Þór Pálsson, fjölfatlaður ungur maður, gróðursetur fyrstu plönturnar.

Landnámsskógurinn í Reykjanesbæ er einn þáttur stærra skógræktar- og útivistarverkefnis sem hugsað er m.a. sem eitt af úrræðum í hæfingu, vinnu og afþreyingu fyrir fatlað og langveikt fólk á Suðurnesjum. Einnig mun verkefnið styðja við aðra starfsemi á svæðinu, sem nú tengist mest landnámstímanum, og auka fjölbreytni framtíðar útivistarsvæða íbúa á Suðurnesjum. Jafnframt er markmiðið að fræða börn á leik- og barnaskólaaldri um skógrækt og gildi hennar.

Skógurinn er hugmynd og verkefni föður Daða Þórs, Páls Rúnars Pálssonar.

Landnámsskógurinn er hugsaður sem hluti af stærri skógarheild á svæðinu ofan við Stekkjarkot og Víkingaheima á Fitjum. Markmiðið í landnámshluta skógarins er að gróðursetja þar eingöngu þær trjátegundir sem álitið er að vaxið hafi á Íslandi við landnám, svo sem birki, sem verður að líkindum uppistaða trjáa á því svæði.
Aðrar tegundir sem ræktaðar verða á skógarsvæðinu verða flestar þær tegundir sem nýttar hafa verið almennt í skógrækt á Íslandi, svo sem greni, fura, ösp, reynir o.fl. þannig að saman myndi öfluga skógarheild og hlífandi umgjörð um landnámshlutann og útivistarrjóður sem gert er ráð fyrir að verði nokkur í skóginum.
Gott aðgengi verður um skóginn þannig að fatlaðir eigi þar greiða leið um, bæði til vinnu sem og til að njóta útivistar.

Ljóst er að svona verkefni þrífst ekki nema með velvilja og stuðningi fyrirtækja og almennings og er það von Páls verkefnisstjóra að svo verði.

Fjáröflun til verksins verður auglýst og kynnt nánar þegar fram dregur, en allar hugmyndir og/eða ábendingar vegna verksins eru vel þegnar á tölvupóstfangið [email protected], segir í tilkynningu frá aðstandendum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024