Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Landhelgisgæzlan byrjuð flutninga til Keflavíkurflugvallar
Föstudagur 23. nóvember 2007 kl. 22:59

Landhelgisgæzlan byrjuð flutninga til Keflavíkurflugvallar

Ætla má að fyrstu skrefin í flutningum flugdeildar Landhelgisgæzlunnar frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar hafi verið stigin í dag, þegar flugdeildin flutti Fokker-flugvél sína, TF-SYN og þyrluna TF-GNA í flugskýli á Keflavíkurflugvelli, sem áður tilheyrði Varnarliðinu.

Landhelgisgæzlan segir að við stækkun flugflotans hjá Gæzlunni sé farið að þrengja að starfseminni í flugskýlinu við Reykjavíkurflugvöll þar sem Landhelgisgæslan hefur nú fjórar þyrlur til ráðstöfunar, auk Fokker flugvélarinnar. Í frétt frá Landhelgisgæzlunni segir að húsakosturinn á Keflavíurflugvelli sé tímabundin ráðstöfun.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæzlunnar (LHG), telur það athyglisverðan kost að flytja starfsemi LHG til Reykjanesbæjar. Í Víkurfréttum fyrr á þessu ári sagði hann flutninginn vera kost sem vert sé að skoða vandlega. Georg bætir um betur og segir að reynsla LHG af sambúðinni í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík sé góð: „Það kann að vera spurning hvort ekki sé rétt að skoða þann möguleika að flytja alla starfsemina suður í Reykjanesbæ en þar er um að ræða Vaktstöð siglinga, Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra, starfsemi 112 og samhæfingarmiðstöð almannavarna“.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sem fer með málefni Landhelgisgæzlunnar, er einnig jákvæður fyrir flutningunum til Keflavíkurflugvallar.

Frá því varnarliðið fór hefur Landhelgisgæzlunni staðið til boða myndarlegt flugskýli á Keflavíkurflugvelli sem er á forræði NATO og var allt endurnýjað fyrir tæpum áratug síðan fyrir um tvo milljarða króna. Þar rúmast allur flugkostur Landhelgisgæzlunnar, auk þess sem þar er rúmgott verkstæðisrými og skrifstofur, auk funda- og fræðslurýmis, samtals á þremur hæðum. Í dag býr Landhelgisgæzlan við mjög þröngan húsakost á Reykjavíkurflugvelli þar sem LHG þarf að hýsa fjórar þyrlur, auk Fokker-flugvélar.

Tíðindi dagsins að flugdeildin sé að koma sér fyrir í flugskýli á Keflavíkurflugvelli eru því ánægjuleg fyrir samfélagið á Suðurnesjum.

Mynd: TF-SYN á leið inn í flugskýlið (mynd: Sigurður Ásgrímsson). Myndin er af vefnum www.lhg.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024