Landhelgisgæslan getur ekki vaxið við Reykjavíkurflugvöll
„Á samráðsvettvangi sveitarfélaga á Suðurnesjum og stjórnvalda í dag var lagt fram minnisblað um hagkvæmnisathugun vegna flutnings starfsemi Landhelgisgæslu Íslands til Suðurnesja. Minnisblaðið er gott innlegg í umræðu um flutning Landhelgisgæslunnar en í minnisblaðinu er aðeins lagt mat á kostnað við verkefnið, þ.e.a.s. einskiptiskostnað og árlega hækkun rekstrarkostnaðar,“ segir í bókun stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum frá því í dag.
Þá segir: „Ljóst er að mikilvægt er að halda áfram hagkvæmisgreiningu á flutningi Landhelgisgæslunnar þar sem farið er yfir hver sé framtíð Landhelgisgæslunnar og hagkvæmni flutnings fyrir bæði gæsluna og Suðurnes enda tekur minnisblaðið ekki á þeim framtíðarkostnaði er Landhelgisgæslan mun verða fyrir ef hún er áfram á þeim stað sem hún er í dag. Líkt og kemur fram í umræddu minnisblaði þá getur Landhelgisgæslan ekki vaxið þar sem hún er og húsnæði hennar er ófullnægjandi.
Stjórn SSS óskar því eftir því að myndaður verði samstarfshópur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum til að halda áfram þessari hagkvæmnisgreiningu svo allar hliðar málsins liggi ljósar fyrir áður en ákvörðun verður tekin,“ segir jafnframt í bókun stjórnar sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Mynd: Flugskýli á Keflavíkurflugvelli sem stendur Landhelgisgæslunni til boða.