Landeigendur vilja tekjur af gönguhóp
Landeigendur að Hrauni í Grindavík hafa gert athugasemd við fyrirhugaða göngu á vegum Útivistar sem áætlað er að verði farin um svæðið eftir einn og hálfan mánuð. Athugasemdirnar eru þess efnis að ætlunin sé að ganga yfir eignaland og því verði að greiða miðað við fjölda þátttakenda í ferðinni. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Í viðtali RÚV við formann Útivistar, Þórarin Eyfjörð, kemur fram að félagið muni aldrei greiða fyrir aðgang ferðamanna hjá áhugafélagi eins og Útivist, til að ferðast um Ísland. Þá kom fram að Þórarinn telji ný náttúruverndarlög ekki tryggja eins vel og eldri lög almannarétt, að ekki megi hefta för gangandi fólks um óræktað land. Hann sagði að ef landeigendur vilji geti þeir kallað til lögreglu og látið handtaka göngufólk og það yrði þá bara að vera þannig. Landeigandi sagði í viðtali við RÚV að athugasemdir hafi verið gerðar við ferðina vegna þess að um sé að ræða hópferð sem félagið ætli sér að hafa tekjur af.