Land hefur risið um 40-45 mm við Þorbjörn
Nýjar gervihnattamyndir hafa borist úr Sentintel-1interferogram en eru þær frá 27. apríl - 21. maí 2022. Þar sést að landris hefur verið í kringum 40-45 mm síðan að nýjasta jarðskjálftahrinan, sem nú stendur yfir, hófst. Frá þessu er greint á vef Veðurstofu Íslands.
Um 400 jarðskjálftar mældust með SIL sjálfvirku staðsetningarkerfi Veðurstofunnar á liðnum sólarhring. Í dag 23. maí kl. 07:15 mældist jarðskjálfti af stærð 3,5 um 3 km austnorðaustan við Þorbjörn. Hans varð vart á Reykjanesskaganum og að höfuðborgarsvæðinu. Í gærkvöldi, 22. maí kl. 23:13, varð jarðskjálfti af stærðinni 3,0 um 3 km á sömu slóðum.